Bæjartákn Fáskrúðsfjarðar – Rex NS-3

Bæjartákn Fáskrúðsfjarðar – Rex NS-3

SONY DSCEins og Frelsisstyttan er tákn New York, og Effelturninn, tákn Parísar. Þá mætti segja að Rex NS-3 sé tákn Fáskrúðsfjarðar. Enda vel við hæfi, þar sem báta- og skipasmíðar eru samþættar bæjarfélaginu með afgerandi hætti. – Upphaflega hét báturinn Litlanes ÞH-52. skr.nr. 955 – Stærð 5,96 brl. Smíðaár 1963. Eik og fura. Afturbyggður súðbyrðingur. – Þilfarsbátur. Vél 24 ha. Bukh. Ný 62 ha. Perkings 1968. Ný 120 ha. Perkings 1986. – Báturinn var smíðaður fyrir Vilhjálmur Sigtryggsson, Þórshöfn sem átti hann í átta ár.

Frá árinu 1972 hét báturinn Þórsnes SI-52, Siglufirði.
Frá árinu 1977 hét hann Óli Bjarna KE-37, Keflavík.
Frá árinu 1978 hét hann Mónes NK-26, Neskaupstað.
Frá árinu 1981 hét hann Hulda GK-114, Sandgerði.

Frá árinu 1983 hét hann Rex NS-3 Seyðisfirði og það nafn bar báturinn þegar hann var tekinn ú rekstri og felldur af skipaskrá 2. desember 1994. – Hlutverki bátsins var aldeilis ekki lokið við afskráningu og fall af skipaskrá. – Hann var fluttur til Fáskrúðsfjarðar og komið þar fyrir á landi til minningar um skipasmíðar Einars Sigurðssonar og fyrirtækja hans, Trésmiðju Austurlands og Oddaverkstæðisins.

Eftir úreldingu, fékk Albert Kemp, sem þá var oddviti Búðahrepps í Fáskrúðsfirði, leyfi til að varðveita Rex á staðnum. Notaði Albert sumarfríið sitt við að slípa niður skrokkinn og undirbúa fyrir málningu. Síðan tóku starfsmenn áhaldahúss Búðahrepps við og luku verkinu og hafa haldið honum vel við.

“Það er áhugi fyrir þessu hér enda er báturinn bæjarprýði,” sagði Albert Kemp í viðtali við Morgunblaðið árið 2006. – Rex hefur einnig gildi fyrir Fáskrúðsfjörð vegna þess að hann var einn af síðustu bátunum sem Einar Sigurðsson smíðaði. – Ferðamenn sem leið eiga um fjörðinn nema gjarnan staðar við bátinn, sem er varðveittur á lítilli tjörn innanlega í þorpinu, fallegur og vel við haldið.

Heimildir: MBL.is og samantekt Árna Björns Árnasonar um austfirska skipasmiði.

Ath. Árni Björn vill biðja austfirðinga og aðra sem vitneskju hafa um einstök skip, báta og skipasmiði sem ekki hafa verið tilgreindir í samantektum hans, að senda sér skilaboð. Hvort sem um nýtt efni er að ræða eða leiðréttingar við það efni sem fyrir er á vefsíðu hans, aba.is


Tengdar greinar

Letilegur naumhyggjustíll í fundagerðum Fjarðabyggðar

Vefsvæði fjarðabyggðar er glæsilegt að uppbyggingu og hefur alla burði til að vera upplýsandi fyrir þá sem vilja fylgjast með

Vistabönd – Þrælahald

Galeiðunni er róið af þegnum sem eru þiggjendur og nefnast launþegar, lánþegar, barnabótaþegar, örorkuþegar og ellilífeyrisþegar. Ólán þessa fólks er

Byggðarforsendur breytilegar á hinum ýmsu stöðum

Á Seltjarnarnesi búa 4.334 manns. Þar búa 1.876 íbúar á hverjum ferkílómetra landssvæðis. í Fjarðabyggð búa hins vegar 4.622 manns,

Engar athugasemdir

Skrifa athugasemd
Engar athugasemdir! Þú getur verið fyrst/ur til skrifa við þessa færslu!