Fjarðabyggð kemur til móts við hestamenn

Fjarðabyggð kemur til móts við hestamenn

Á fundi Eigna- skipulags- og umhverfisnefndar sem haldinn var þann 11. júní sl. var lögð fram tillaga eigna- og skipulagsfulltrúa frá 7. júní um aðstöðu- og reiðleiðir hestamanna og gangandi vegfarenda á Fáskrúðsfirði.

“Nefndin samþykkir að koma á móts við þarfir hestamanna og gangandi innan við byggðina á Fáskrúðsfirði.

Reiðstígur verði gerður að og á uppgróinn slóða milli túna ofan Kirkjubólsár í átt að Aragerði. Reiðstígur heldur síðan áfram á gömlum slóðum inn Kirkjubólslandið í lítinn hring og til baka sömu leið.

Skilti sem banna hestaumferð á svæðinu verði fjarlægð utan skiltis við Ljósaland sem yrði fært nær Ljósalandi.

Fyrirhugaður er stígur ofan þéttbýlisins á Fáskrúðsfirði sem hestamenn munu geta nýtt til að komast út fyrir byggðina.

Fjarðabyggð mun í samráði við hestamenn á Fáskrúðsfirði sækja um styrk í reiðvegasjóð Vegagerðarinnar svo hægt sé að viðhalda þeim reiðvegum sem þegar eru komnir við þjóðvegi í nágrenni hesthúsabyggðarinnar í Fáskrúðsfirði.

Fjarðabyggð mun gera afnotasamning við félag hestamanna á Fáskrúðsfirði (óstofnað félag) um ónýtt land í nágrenni hesthúsabyggðarinnar á Fáskrúðsfirði sem beitarland. Félagið sjálft mun sjá um að skipta landinu milli félagsmanna.

Snjóruðningur að hesthúsahverfi verði settur inní snjóruðningsskipulag dreifbýlis í Fjarðabyggð.

Fjarðabyggð mun í samráði við hestamenn klára tillögu að deiliskipulagi svæðisins.” Tilvitnun lokið.

Bæjarfélagið okkar sýnir jákvæðan hug til hestamanna með þessum samþykktum og því ber að fagna. Vonandi mun skapast friður til framtíðar litið með þeim sem ferðast um á hestum annars vegar og þeirra sem njóta þess að fara fótgangandi um Fjörðinn fagra. 🙂

Hesthúsahverfið fáskrúðsfirði


Engar athugasemdir

Skrifa athugasemd
Engar athugasemdir! Þú getur verið fyrst/ur til skrifa við þessa færslu!