Fjarðabyggð og hestamenn – Jákvæð viðbrögð

Fjarðabyggð og hestamenn – Jákvæð viðbrögð

Samkvæmt minnisblaði frá framkvæmdasviði Fjarðabyggðar til eigna, skipulags og umhverfisnefndar um aðstöðu- og reiðleiðir á Fáskrúðsfirði segir m.a. að fundað hafi verið með hestamönnum þann 25. apríl sl. vegna óánægju þeirra með bann við umferð hestamanna við Ósinn, við Ljósaland og inn á Kirkjubólsveg.  Á fundinum var farið yfir útreiðarmöguleika hestamanna á fyrrnefndum svæðum, viðhald og endurbætur reiðstíga ásamt gerð nýrra reiðstíga og lokafrágang óklárðra reiðstíga. Jafnframt var rætt um snjóruðning að hesthúsahverfi, beitarsvæði, samnýtingu reið- og göngustíga, ástand vegslóða og götulýsingu að hverfinu.

Á fundinum kom fram að hestamönnum þykir að sér þrengt þegar þeim er meinaður aðgangur að reiðleiðum sem þeir hafa notað til margra ára í nálægð við heshúsahverfið. Einnig var rætt um hugsanlega aðkomu sveitarfélagsins að gerð tamningagerðis, þ.e. að fá traktorsgröfu með manni í jarðvinnu. Skipulagsmál voru rædd, en hesthúsahverfið er ekki deiliskipulagt en drög að því liggur fyrir.

Nokkrar hugmyndir og tillögur eru settar upp á umræddu minnisblaði til að sætta sjónarmið hestamanna og þeirra sem telja að hestaumferð og umferð gangandi fólks fari ekki saman:

* Stígur ofan Óssins neðan Ljósalands og áfram inn að Kirkjubóli verði aðeins fyrir gangandi einstaklinga.

* Sameiginlegur göngu- og reiðstígur verði eftir vegi á miðju svæðinu.

* Möguleiki verði á reiðstígagerð með Kirkjubólsá svo hringleið myndist fyrir hestamenn með vegi á miðju svæðinu.

* Möguleiki verði á reiðstígagerð með Kirkjubólsá í átt að Aragerði og með Aragerðislæk til baka. Sameiginlegur göngu- og reiðstígur á miðju svæðinu dytti þá út.

* Sameiginlegur göng- og reiðstígur verði ofan þéttbýlis á Fáskrúðsfirði. Þessi leið myndi kalla á opnun reiðleiðar við Ósinn.

* Fjarðabyggð mun í samráði við hestamenn á Fáskrúðsfirði sækja um styrk í reiðvegasjóð Vegagerðarinnar svo hægt sé að viðhalda þeim reiðvegum sem þegar eru komnir við þjóðvegi í nágrenni hesthúsabyggðarinnar á Fáskrúðsfirði.

* Fjarðabyggð mun afhenda félagi hestamanna á Fáskrúðsfirði (óstofnað) ónýtt land í nágrenni hesthúsabyggðarinnar á Fáskrúðsfirði sem beitarland. Félagið sjálft mun sá um að skipta landinu milli félagsmanna.

* Snjóruðningur að hesthúsahverfi verði settur inn í snjóruðningsskipulag á Fáskrúðsfirði.

* Möguleiki verði á að ryðja reiðleiðir næst hesthúsahverfi með öðrum snjóruðningi.

* Fjarðabyggð mun í samráði við hestamenn klára tillögu að deiliskipulagi svæðisins.

* Unnið verði að vegbótum að hesthúsahverfi ásamt lýsingu.

Að lokum segir í minnisblaði:  “Með opnum huga og tillitsemi ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að vera með sameiginlega göngu- og reiðstíga á þessum vegköflum sem stungið er uppá að verði samnýttir. Hestamenn leitist við að hreinsa hrossa skít af veginum, fari rólega þegar gangandi fólki er mætt og haldi sig neðramegin á veginum. Gangandi/hlaupandi vegfarendur fari rólega þegar hestamenn eru á ferð, hundaeigendur passi uppá hunda sína. Allir gangandi eða hlaupandi haldi sig efra megin á veginum.”

Hestamenn á Fáskrúðsfirði eru glaðir með tillögur Fjarðabyggðar og sjá þeir fram á bjartari tíð með blóm í haga ef af þeim verður.


Engar athugasemdir

Skrifa athugasemd
Engar athugasemdir! Þú getur verið fyrst/ur til skrifa við þessa færslu!