Fjölbreyttir styrkir veittir við vorúthlutun Alcoa

Fjölbreyttir styrkir veittir við vorúthlutun Alcoa

2014_05_afhending2_largeVorúthlutanir styrkja úr Styrktarsjóði Alcoa Fjarðaáls og Samfélagssjóði Alcoa (Alcoa Foundation) fóru fram í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði þann 14. maí. Að venju voru veittir styrkir af fjölbreyttum toga, bæði á sviði íþrótta- og menningarmála, en einnig á sviði mennta- og ferðamála.

Alcoa Fjarðaál veitti 29 styrki, alls að upphæð 21 milljón króna. Hæsta styrkinn frá Styrktarsjóði Alcoa Fjarðaáls hlaut að þessu sinni Björgunarsveitin Hérað, eina milljón króna, vegna kaupa á sérstakri búnaðarkerru til nota við hópslysabjörgun. Í kerrunni verða meðal annars sjúkrabörur, teppi, spelkur og annar nauðsynlegur sjúkrabúnaður. Með styrknum vill Fjarðaál auka enn frekar getu björgunarsveitanna á svæðinu til að takast á við umfangsmiklar björgunaraðgerðir.

Á vegum Alcoa Foundation voru veittir tveir styrkir, annars vegar til Veraldarvina og hins vegar í nýtt verkefni Alcoa hér á landi sem nefnist Synir og dætur (Sons & Daughters) og er sá styrkur ætlaður börnum starfsmanna Alcoa sem eru á leið í háskólanám.

Veraldarvinir hlutu 25 þúsund dollara styrk, um 2,8 milljónir króna, vegna starfsemi samtakanna á Austurlandi. Veraldarvinir eru íslensk félagasamtök sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða og vinna að margvíslegum samfélagsverkefnum árið um kring um allt land. Á þessu ári gera samtökin ráð fyrir að taka á móti 1.500 erlendum sjálfboðaliðum til að starfa við 130 tveggja vikna verkefni, þar af um 650 manns vegna verkefna í Fjarðabyggð.

Marteinn Gauti Kárason hlaut styrk til háskólanáms samtals 4.000 dollara eða tæpa hálfa milljón króna, sem greiddur verður á næstu fjórum árum. Marteinn er að ljúka námi í Menntaskólanum á Egilsstöðum og hyggst hefja nám í viðskiptafræði í haust.

Vert er að geta þess að aldursforsetinn í hópi styrkþega var Mjófirðingurinn Vilhjálmur Hjálmarsson fyrrv. ráðherra en hann verður 100 ára í haust. Vilhjálmur hlaut styrk fyrir væntanlega bók sína, Örnefni í Mjóafirði. Markmið Vilhjálms er að koma bókinni út fyrir stórafmælið en bókin á sér langan aðdraganda þar sem Vilhjálmur greindi frá því að hann hefði byrjað á henni fyrir 70 árum, árið 1944.

Um Veraldarvini
Markmið Veraldarvina er að stuðla að vináttu, heilbrigðum lífsháttum og betri umgengni við umhverfið. Á undanförnum tólf árum hafa samtökin skipulagt 810 verkefni vítt og breytt um Ísland sem rúmlega níu þúsund erlendir sjálfboðaliðar hafa tekið þátt í ásamt heimamönnum. Alls hafa sjálfboðaliðarnir skilað yfir einni milljón vinnutunda til samfélagsins, m.a. í formi hreinsunar meðfram strandlengju Íslands, þar sem hreinsaðir hafa verið 3.120 km af 4.950 km langri strönd landsins. Áætlað er að ljúka verkinu 2017. Auk þessa hafa verið gróðursett þúsundir trjáplantna og lagðir tugir kílómetra af göngustígum svo nokkuð sé nefnt. Fjarðabyggð gaf Veraldarvinum gamla barnaskólann á Eskifirði í fyrra sem nú er notaður sem miðstöð samtakanna á Austurlandi. Á veturna sinna samtökin fræðslutengdum verkefnum í grunn- og leikskólum Fjarðabyggðar þar sem áhersla er lögð á aukna umhverfisvitund barnanna. Á sumrin taka umhverfisverkefnin við. Veraldarvinir hyggjast gera gamla barnaskólann upp á næstu árum og koma honumn í sem næst upprunalegt horf. Sjá einnig á Sjá einnig vefsvæð Alcoa-Fjarðaál


Tengdar greinar

Smíði á bjálkahúsi frá A-Ö

Forvitnilegt myndband þar sem farið er í skóg, tré valin og úr þeim reist bjálkahús.

Fjarðabyggð – Sex milljónir í vefsíðuviðbót

Á fundi Hafnarstjórnar frá 11. febrúar sl. varð umfjöllun um endurnýjun á vef Fjarðabyggðarhafna og vefsmíði ferðaþjónustuvefs. Fyrir fundinum lá

Engar athugasemdir

Skrifa athugasemd
Engar athugasemdir! Þú getur verið fyrst/ur til skrifa við þessa færslu!