Framboðsflokkar í sjónvarpssal

Framboðsflokkar í sjónvarpssal

Framboðsflokkarnir voru í sjónvarpssal í gærkvöldi. Málflutningur Birgittu Jónsdóttur fyrir Pírataflokkinn var heiðarlegur og upplýsandi um hvernig kaupin gerast í reykfylltum bakherbergjum á hinu háa alþingi. Þegar flokkurinn er gúglaður og leitað að heimasíðu er fátt að finna annað en umræðusíðu með takmörkuðum aðgangi. Ég er litlu nær um stefnu og frambjóðendur flokksins. – Margrét Tryggvadóttir, Dögun kom vel út. Einnig þeir Guðmundur Franklín Jónsson fyrir Hægri græna og Þorvaldur Gylfason fyrir Lýðræðisvaktina.

Stjórnarflokkarnir komu illa út að mínu mati. Árni Páll Samfylkingu, talaði eins og lögfræðingur í lélegri málsvörn og Katrín Jakobsdóttir Vinstri græn, virkaði þreytuleg og ósannfærandi. Framsóknarflokkurinn undir stjórn Sigmundar Davíðs er á siglingu sem aldrei fyrr, þar eru lausnir fyrir alla eins og fyrri daginn. Sjálfstæðisflokkurinn, Bjarni Benediktsson vill rétta af hag þeirra sem betur mega sín og þá telur hann að allt annað lagist í fyllingu tímans. – Heiða Kristín Helgadóttir svaraði fyrir Bjarta framtíð. Flokkurinn hefur fengið meðbyr að undanförnu og vonandi skapar hann sér sérstöðu utan fjórflokksins og verður sannfærandi valkostur þegar fram líða stundir.


Engar athugasemdir

Skrifa athugasemd
Engar athugasemdir! Þú getur verið fyrst/ur til skrifa við þessa færslu!