Óheyrilegur kostnaður Austfirðinga vegna sérfræðiþjónustu lækna

Óheyrilegur kostnaður Austfirðinga vegna sérfræðiþjónustu lækna

3901813960_c0f9cbde47Það má til sanns vegar færa að Austfirðingar sitja ekki við sama borð og Reykvíkingar þegar kemur að læknaþjónustu. Óheyrilegur kostnaður getur fallið á sjúklinga vegna ferðakostnaðar ef þeir þurfa ítrekað að heimsækja sérfræðilæknir á Reykjavíkursvæðinu. Haft var samband við Velferðarráðuneytið og óskað eftir upplýsingum vegna manns sem þurfti í þrígang á sl. ári að ferðast frá Austfjörðum til Reykjavíkur til að heimsækja sérfræðing vegna heilsu sinnar.

Maðurinn sagði svo frá að hann hefði fengið greiddan ferðakostnað fyrir tvær ferðir en sýslumaðurinn á Eskifirði hafnaði að greiða kostnað fyrir þriðu ferðina þar sem hann hefði þá þegar fengið tvær ferðir greiddar á 12 mánaða tímabili.

Velferðarráðuneytið var beðið um að upplýsa hvaða reglur giltu um greiðslu ferðakostnaðar í slíkum tilvikum og hvort almennt sé álitið að Austfirðingar þurfi ekki að sækja læknasérfræðinga oftar en tvisvar sinnum á hverju 12 mánaða tímabili.

Þá var spurt, ef slíkar reglur eru í gildi, hvort Velferðarráðuneytið hyggist beita sér fyrir að Austfirðingar komi til með að njóta sambærilegrar sérfræðiþjónustu og á sambærilegu verði og þeir sem búa á stór-Reykjavíkursvæðinu.

Svar barst í morgun og þar segir m.a.:
“Ákvæði um þátttöku í óhjákvæmilegum ferðakostnaði fyrir sjúkratryggða sem þarfnast ítrekaðrar meðferðar hjá lækni eða í sjúkrahúsi er í 30. gr. laga um sjúkratryggingar, nr. 112/2008. Samkvæmt greininni er ráðherra jafnframt heimilt að setja reglugerð um nánari útfærslu greinarinnar. Gildandi reglugerð um efnið er reglugerð um ferðakostnað sjúkratryggðra og aðstandenda þeirra innanlands, nr. 871/2004, með síðari breytingum. Samkvæmt 2. gr. reglugerðarinnar er meginreglan sú að sjúkratryggingar taka þátt í tveimur nauðsynlegum ferðum sjúkratryggðs einstaklings á 12 mánaða tímabili. Hins vegar taka sjúkratryggingar þátt í kostnaði sjúkratryggðra vegna ítrekaðra ferða þegar um er að ræða alvarlega sjúkdóma sem tilgreindir eru í reglugerðinni eða sambærilegra sjúkdóma.

Þess skal getið að reglugerðin er í endurskoðun.”

Undirritað

F.h.r.
Steinunn M. Lárusdóttir


Engar athugasemdir

Skrifa athugasemd
Engar athugasemdir! Þú getur verið fyrst/ur til skrifa við þessa færslu!