Rangárþing ytra vill láta skuldara verðtryggðra lána njóta vafans

Rangárþing ytra vill láta skuldara verðtryggðra lána njóta vafans

Loksins kemur fram alvöru samþykkt og afstaða sveitarfélags, sem ber hag íbúa sinna fyrir brjósti í því upboðsfári sem hér hefur ríkt undanfarin misseri.

Rangárþing ytra hefur tekið af skarið og gert svohljóðandi samþykkt:

“Óvissa í réttarkerfinu – Sveitarfélagið hafi forgöngu um að kannað verði lögmæti þess að banna nauðungarsölur fasteigna í sveitarfélaginu á meðan réttaróvissa er um útreikninga verðtryggðra lána.

Tillaga Á-lista: Leitað verði formlegs álits hjá lögfræðisviði Sambands Íslenskra Sveitarfélaga (SÍS) um réttaráhrif þess að sveitarfélag lýsi því yfir við embætti sýslumanns að það leggist gegn því að bjóða upp fasteignir gerðarþola í fullnustuaðgerðarmálum vegna verðtryggðra lána.

Greinargerð: Á meðan óvissa ríkir um lögmæti útreiknings á verðtryggðum lánum telja fulltrúar Á-lista að stöðva beri nauðungarsölur þar sem slík tilfelli eiga við um skilmála lána. 73. gr. nauðungarsölulaga kveður skýrt á um “að rísi upp ágreiningur” á milli gerðarþola og gerðarbeiðenda, beri sýslumanni að vísa málum frá, eða fresta þeim, þar til úrskurður héraðsdóms liggur fyrir um lögmæti krafna. Nú eru a.m.k. þrjú mál fyrir héraðsdómi þar sem tekið er á um lögmæti útreiknings og gildi verðtryggðra lána. Í ljósi þessa stendur vilji til að sveitarstjóra verði falið að tilkynna viðkomandi yfirvaldi að sveitarfélagið leggst gegn því að eignir íbúa sveitarfélagsins í sveitarfélaginu verði seldar á nauðungarsölu, án undangengins dóms í viðkomandi héraði vegna fyrrgreinds ágreinings. Fulltrúar Á-lista vilja standa vörð um hagsmuni almennings í samræmi við 7. gr. sveitarstjórnarlaga. Ef minnsti vafi leikur á réttmæti krafna gerðarbeiðanda í nauðungarmálum þarf að túlka lög þröngt almenningi í hag.

Samþykkt samhljóða.

Oddvitum D- og Á-lista og sveitarstjóra er falið að taka saman erindi og senda til Lögfræðisviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga.” – Sjá fundargerð

Um Rangárþing ytra

“Rangárþing ytra er víðfeðmt sveitarfélag með 1518 íbúa (1. janúar 2013). Mörk þess afmarkast að mestu af Þjórsá að vestan, vatnaskilum að norðan að Vatnajökli og Tungnaá. Að sunnan fylgja mörkin Mýrdalsjökli að Eystri-Rangá. Rangárþing ytra er mikið landbúnaðarhérað og hestamennska stunduð í mifundargerðklu mæli. – Hella er helsti þéttbýlis- og atvinnukjarni sveitarfélagsins með 784 íbúa (1. janúar 2013). Á Hellu byggist atvinnulífið að mestu á þjónustu við landbúnaðinn auk þjónustu við íbúa svæðisins og ferðamenn. Á Hellu er banki, pósthús, upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn, hótel, gistiheimili, sumarhús, tjaldsvæði, veitingahús, verslanir, apótek, heilsugæslustöð, sláturhús, bifvélaverkstæði, hjólbarðaverkstæði, bensínstöð auk margs konar atvinnureksturs og opinberrar þjónustu.”


Engar athugasemdir

Skrifa athugasemd
Engar athugasemdir! Þú getur verið fyrst/ur til skrifa við þessa færslu!