Alþingisræða Ólafs Ísleifssonar FLF – Um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu

Alþingisræða Ólafs Ísleifssonar FLF – Um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu

“Herra forseti. Maður spyr sig: Ætli þurfi að leita lengi til að finna skýringar á því að fólk ber takmarkað traust til Alþingis og stjórnvalda? Við höfum staðfestar upplýsingar um að hátt í 10.000 fjölskyldur hafi verið hraktar af heimilum sínum frá hruni, feður og mæður með börnin sín, a.m.k. 30.000 manns, 3.000 persónuleg gjaldþrot og 116.000 fjárnámsgerðir. Skyldi það fólk sem fyrir þessu hefur orðið sjá ástæðu til að bera mikið traust til Alþingis og stjórnvalda? Hversu ónæmir þurfa menn að vera til að skynja ekki sviða og beiskju þess fólks sem mátti þola aðfarir fjármálakerfisins eftir að krónan missti helming verðgildis síns og verðbólgan fór upp úr öllu valdi án þess að Alþingi eða stjórnvöld skytu fyrir það skildi eða reistu skjaldborg í þágu þeirra? Hversu margt fólk situr enn í eins konar skuldafangelsi eins og formaður Hagsmunasamtaka heimilanna hefur lýst svo glögglega á opinberum vettvangi?

Heimilin búa við kostnað við fjármögnun íbúðarhúsnæðis sem þætti afarkostir í nágrannalöndunum, verðtryggingu með stjórnlausum húsnæðislið sem sýgur frá heimilunum milljarða tugi á milljarða tugi ofan ár eftir ár. Heyra menn ekki soghljóðið? Á fólk að bera traust til þeirra sem bera ábyrgð á þessu? Menn sjá skattahækkanir, sumar hverjar til góðra mála eða til að rækja alþjóðleg markmið, sem hafa þá hliðarverkan að þær hækka höfuðstóla fólks sem getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér og hækka að sama skapi greiðslubyrði lána, færa fjármálastofnunum nýjar kröfur, lögvarðar kröfur, þar sem allt afl réttarkerfisins er að baki. Eiga menn að bera traust til þeirra sem láta þetta kerfi halda svona áfram?

Menn sjá að lægstu tekjur eru skattaðar þrátt fyrir að þær dugi ekki til framfærslu samkvæmt viðurkenndum viðmiðum stjórnvalda. Eiga menn að bera traust til þeirra stjórnvalda? Menn sjá skerðingar, svokallað frítekjumark, sem hindrar fólk, aldraða og lífeyrisþega, í að bæta hag sinn í krafti sjálfsbjargarviðleitni með aukinni vinnu. Er þetta fyrirkomulag sérstök uppspretta trausts á Alþingi og stjórnvöldum? Menn sjá 30.000 Íslendinga búa erlendis sem ekki er boðið upp á neitt annað við heimkomu en að gerast skuldaþrælar í verðtryggingunni. Menn sjá sérfræðilækna erlendis sem ekki virðast velkomnir heim til að leggja sitt af mörkum í heilbrigðiskerfinu og í íslensku samfélagi. Eiga menn að bera traust til Alþingis og stjórnvalda þegar málum er þannig skipað?

Svona mætti lengi telja. Um traust til stjórnmálamanna vil ég vitna til Bjarna Benediktssonar sem var einn mikilhæfasti stjórnmálaleiðtogi landsins á liðinni öld, forsætisráðherra í Viðreisnarstjórninni 1961 og 1963–1970. Hann sagði, með leyfi forseta:

„Auðvitað hlýtur sá sem við stjórnmál fæst að sækjast eftir trausti fólksins. Sumpart er það sjálfsagt persónulegur metnaður, en sumpart er það óhjákvæmilegt skilyrði fyrir því að starf hans geti komið að gagni. En hvernig verður því trausti náð og haldið? Ég hef aldrei komið auga nema á eina leið til þess, hún er að vinna til traustsins. Fólkinu verður ekki sagt að treysta neinum. Það verður sjálft að finna hvort maðurinn er trausts verður. Með góðri grein eða góðri ræðu er hægt að vekja hrifningu í bili, ná svo og svo miklum völdum og vegtyllum, en traustið öðlast maður aldrei nema hann vinni fyrir því.“

Svo mörg voru þau orð. Við þau er engu að bæta.”


Tengdar greinar

Ný sauðfjárvarnargirðing í Fáskrúðsfirði

Þessa dagana er jarðvegi bylt með stórvirkri vinnuvél í norðurhlíð Fáskrúðsfjarðar. Þarna skal strengja sauðfjárvarnargirðingu út- og inneftir ofanverðri hlíðinni

Sitt sýnist hverjum um virðingu Alþingis

„….Ég legg til, svo að við förum ekki öll í jólaköttinn, að við tökum okkur taki og hugum að klæðnaði

Fjárlagafrumvarpið – Aldraðir og öryrkjar mega éta það sem úti frýs

Stjórnarandstaðan barðist hetjulega fyrir bættum kjörum öryrkja og aldraðra í umræðu um fjárlagafrumvarpið, án árangurs. Fróðlegt var að fylgjast með

Engar athugasemdir

Skrifa athugasemd
Engar athugasemdir! Þú getur verið fyrst/ur til skrifa við þessa færslu!

Skrifa athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.