Bágborin aðstaða ungmenna í Fjarðabyggð

Ungmennaráð hefur sent bæjarstjórn eftirfarandi athugasemdir varðandi aðstöðu í íþróttahúsum og félagsmiðstöðvum Fjarðabyggðar.
A) Húsnæðið sem hýsir starfsemi félagsmiðstöðvarinnar á Stöðvarfirði þarfnast gagngerra endurbóta. Kyndingin er sama og engin, salernisaðstöðu er ábótavant, einungis kemur kalt vatn úr krönum auk þess sem húsið er mjög illa farið að utan.- Ungmennaráð fer þess á leit við bæjarstjórn að hún geri áætlun um úrbætur og sjái til þess að þeirri áætlun verði fylgt eftir.
Svar: Fræðslu- og frístundanefnd tekur undir áhyggjur ungmennaráðs. Eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd hefur þegar fjallað um málið og hyggst skoða húsnæðismálin í tengslum við uppbyggingu Þokuseturs.
B) Búnaður í Félagsmiðstöðinni Hellinum á Fáskrúðsfirði er mjög takmarkaður. Sérstaklega þegar hann er borinn saman við það sem er til staðar í öðrum félagsmiðstöðvum í Fjarðabyggð. Ekkert þythokkíborð er til staðar, ekkert billiardborð og enginn leikjatölva. – Ungmennaráð fer þess á leit við bæjarstjórn að veitt verði viðbótar fjármagni til búnaðarkaupa fyrir félagsmiðstöðina á Fáskrúðsfirði.
Svar: Fræðslu- og frístundanefnd vísar erindinu til fjárhagsáætlunarvinnu fyrir árið 2015.
C) Fjarðabyggðarhöllin lekur enn smávægilega og einstaka sinnum myndast hálkublettir þegar frystir vegna þessa. Auk þess veldur kuldinn í höllinni því að sumum þykir mjög óþægilegt að æfa þar inni.- Ungmennaráð fer þess á leit við bæjarstjórn að klárað verði að gera við þaklekann og unnið verði að því að ná upp hita í húsinu.
Svar: Eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd hefur svarað erindinu á eftirfarandi hátt: “Ekki náðist að klára viðgerð á þaki Fjarðabyggðarhallarinnar fyrir veturinn en henni verður lokið í vor. Hvað kyndingu varðar þá eru enn ekki áform um kyndingu hússins
D) Íþróttahúsið á Norðfirði er mjög þétt bókað, þrátt fyrir stærð þess og þá staðreynd að hluta má salinn niður. Nánast ómögulegt er að koma fleiri tímum í húsið miðað við núverandi opnun hússins. – Ungmennaráð bendir bæjarstjórn á þann möguleika að opna húsið á sunnudögum. – Það myndi fjölga tímum umtalsvert og greiða leið nýrra hópa inn í húsið. Opnun myndi þó eins og gefur að skilja, kosta aukin fjárútlát en hugsanlega kæmi eitthvað til baka í formi salaleigu.
Svar: Fræðslu- og frístundanefnd vísar erindinu til fjárhagsáætlunarvinnu fyrir árið 2015.
Eigna- skipulags- og umhverfisnefnd fór þess á leit við fræðslu- og frístundanefnd að mótuð verði heildstæð stefna í málefnum félagsmiðstöðva í Fjarðabyggð. Jafnvel verði það skoðað hvort starfsemi þeirra rúmist innan veggja grunnskólanna. Fræðslu- og frístundanefnd minnir á fræðslu- og frístundastefnu sem samþykkt var árið 2009 og fyrir liggur að endurskoða í byrjun næsta kjörtímabils. Þar mun m.a. verða mótuð stefna í málefnum félagsmiðstöðva. – Sjá Vefsvæði Fjarðabyggðar