Biðlistar eftir aðgerðum – Fyrirspurn Guðmundar Inga Kristinssonar Flokki fólksins

Biðlistar eftir aðgerðum – Fyrirspurn Guðmundar Inga Kristinssonar Flokki fólksins

“Virðulegi forseti. Ég ætla að beina fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra um biðlista. Ástæða þess að ég spyr um þetta núna er sú að ég var minntur á það nýlega af einstaklingi sem spurði hvað ætti að ske í biðlistamálum. Hann er með meðaltekjur, 8–9 milljónir á ári, aðgerðin kostar milljón og ég kalla þetta að spara aurinn og henda krónunni.

Ég lenti í þessu sama fyrir rúmum 20 árum. Þá reiknaði ég út að það kostaði ekki nema einn fimmta að gera aðgerðina á mér en það var sagt: Nei. Tryggingafélagið Skandia vildi gera þetta og þá var sagt: Nei, það má ekki gera einka, þú ert á biðlista í heilt ár og þú verður bara að kveljast þar.

Ég slasaðist nefnilega ekki rétt. Það er þannig á Íslandi að ef maður slasast ekki rétt er maður settur í hálfgert fangelsi þar sem maður á að kveljast í heilt ár, jafnvel tvö, þrjú ár. Hvernig í ósköpunum getur staðið á því að á sama tíma eru t.d. 24 einstaklingar á þessu ári, bara það sem af er þessu ári, á leiðinni til Svíþjóðar í aðgerð sem hefði verið hægt að gera á 75 manns hérna heima fyrir sama pening?

Það eru 20 ár síðan ég var á biðlista og það er engin breyting, ef eitthvað er er það verra, og ég spyr fyrst það er engin breyting: Er það stefna þessarar ríkisstjórnar að eftir 20 ár verði sama ástand eða jafnvel verra? Þess vegna spyr ég ráðherra: Hvað er að ske í biðlistamálum og hver er stefnan?

Myndband tengt fyrirsurn

Heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):
Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina, ekki síst vegna þess hversu mikilvæg og aðkallandi hún er. Það kom fram í máli hv. þingmanns að þetta hefur í raun verið viðvarandi ástand á Íslandi í mjög langan tíma, í mjög mörg ár. Ég hef aðeins setið í embætti heilbrigðisráðherra í tæplega hálft ár en ég er þeirrar skoðunar að ástandið sé óásættanlegt. Ég er þeirrar skoðunar að heilbrigðiskerfi í fremstu röð geti ekki verið þekkt fyrir það að fólk sé sárkvalið, vikum og mánuðum saman, á biðlista eftir aðgerð. Þá er eitthvað skakkt í kerfinu okkar.

Það er eitthvað sem er ekki rétt við það hvernig fólk raðast á listann, hvernig forgangsröðun fer fram. Við höfum ráðstafað miklum peningum í það sem kallað hefur verið biðlistaátak í nokkur ár og munum gera það áfram. En að mínu mati er árangurinn ekki nógu mikill. Af þeim sökum hef ég óskað eftir því við mitt ráðuneyti, gerði það fyrir tíu dögum, að fá til mín tillögur um það hvernig þau sjúkrahús sem hafa verið að annast þessar aðgerðir geti stillt betur saman strengi um það hvernig biðlistarnir eru settir saman, hvernig forgangsraðað er á þá og mögulega þá að skilgreindur sé á tilteknum stað vettvangur fyrir þær aðgerðir sem eru mest aðkallandi vegna þess að viðkomandi sé illa kvalinn og geti ekki hvílst.

Ég bíð eftir þessum tillögum og vonast til þess að fá þær fyrir lok mánaðarins. Ég er sammála þingmanninum um að þetta er nokkuð sem við getum ekki þolað í velferðarsamfélagi og ekki þar sem heilbrigðiskerfið á að vera í fremstu röð. (Forseti hringir.) Ég er líka þeirrar skoðunar að þetta verði ekki leyst með neinum einföldum hætti.

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):
Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra svörin. Biðlistar í dag, 3.400 bíða eftir aðgerð á Landspítalanum, þar af 1.428, eða 42%, lengur en í 90 daga. 709 sjúklingar á biðlista í febrúar eftir liðskiptaaðgerðum og 385 sjúklingar í bið eftir liðskiptaaðgerðum á mjöðm. Biðtími eftir hjúkrunarheimili hefur lengst. Þar hafa 30% karla og 40% kvenna beðið lengur en 90 daga. Hjá embætti landlæknis í nóvember, 365 einstaklingar voru að bíða eftir hjúkrunarrými. Við erum líka komin með fólk með alzheimer, 200 manns að bíða eftir þjónustu. Biðlistar eru alls staðar að lengjast. – Ég segi það alveg eins og er — það er tíu til tuttugu sinnum verra að bíða á biðlista en fara í aðgerðina sjálfa eða lenda í slysinu. Það verður eitthvað að gera. Það er ekki ásættanlegt að dæma fólk eftir því hvernig það slasast, hversu lengi það eigi að kveljast.

Heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):
Virðulegur forseti. Enn og aftur þakka ég þingmanninum fyrir spurninguna. Ég er sammála því að það þarf að halda þessu máli mjög rækilega á dagskrá. Hv. þingmaður spyr líka um biðlista eftir hjúkrunarrýmum. Í nýrri fjármálaáætlun, sem ég vona að þingið afgreiði með jákvæðum hætti, að því er varðar viðbót í uppbyggingu nýrra hjúkrunarrýma, erum við að taka á þeim þætti, þ.e. með það að markmiði að stytta biðtímann eftir hjúkrunarrými umtalsvert á þessum fimm árum sem er tími fjármálaáætlunar. Það hefur áhrif á kerfið allt saman. Það hefur áhrif á Landspítalann o.s.frv. En það hefur síðast en ekki síst, og auðvitað kannski fyrst og fremst, áhrif á það að draga úr vanlíðan fólks, þ.e. fólks sem býr við sársauka og kvalir, eins og hv. þingmaður bendir hér réttilega á. Ég veit að hv. þingmaður deilir því líka með mér að hin hliðin á þessum peningi er í raun umræðan um verkjalyf og svefnlyf o.s.frv. Það er oftar en ekki svo að það er ástæða fyrir því að fólk (Forseti hringir.) neytir slíkra lyfja. Stundum er ástæðan allt of löng og óásættanleg bið.”

Mynd Öryrkjabandalagsins: “Öryrkjar spila Skerðingu – ömurlegt spil fyrir alla fjölskylduna – á Austurvelli við þingsetningu. Við svo búið munu fjölmargir þurfa að halda áfram að spila þetta rangláta spil og sitja fastir í fátæktargildrunni.”


Tengdar greinar

Bygging leikskóla á Neseyri, Neskaupstað

Bæjarráð Fjarðabyggðar hefur samþykkt að ganga til samninga við VHE ehf um byggingu leikskóla á Neseyri í Neskaupstað. Kostnaðaráætlun var

Boðað til byltingar og uppreisnar á Austurvelli

Svo virðist sem fólk sé orðið langþreytt á stjórnvöldum. Fimm þúsund manns hafa boðað sig til mótmæla á Asturvelli þann

Engar athugasemdir

Skrifa athugasemd
Engar athugasemdir! Þú getur verið fyrst/ur til skrifa við þessa færslu!

Skrifa athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.