Síðasti mánuður vetrar

Einmánuður, sem hefst í dag, er síðasti mánuður vetrar og tekur við af góu. Hann hefst á þriðjudegi á bilinu 20.–26. mars og stendur þar til harpa tekur við á bilinu 19.–25. apríl. Nafnið kemur fyrir þegar í fornum bókmenntum, m.a. í Skáldskaparmálum Snorra-Eddu. – Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar (II: 551) kemur fram að yngismenn áttu að fagna einmánuði eins og yngismeyjar hörpu og fyrsti dagur einmánaðar var víða um land nefndur yngismannadagur.
Margar vísur eru til um einmánuð rétt eins og um þorra og góu. Allnokkrar má finna í bók Árna Björnssonar Saga daganna og m.a. þessa (1993: 604):
Þorri vondur vakti hret
vindasöm hún Góa.
Einmánuður eftir lét
öllum vætu nóga.
Annars er gamla tímatalið þannig:
Vetur: gormánuður, ýlir, mörsugur, þorri, góa, einmánuður.
Sumar: harpa, skerpla, sólmánuður, heyannir, tvímánuður, haustmánuður.
Hátíðir tengdar eldra tímatalinu eru þessar:
Bóndadagur er fyrsti dagur þorra, alltaf á föstudegi.
Þorrablót eru haldin á þorra.
Konudagur er fyrsti dagur góu, alltaf á sunnudegi.
Góugleði er haldin á góu.
Sumardagurinn fyrsti er fyrsti dagur hörpu, alltaf á fimmtudegi.
Fyrsti vetrardagur er fyrsti dagur gormánaðar, alltaf á laugardegi.
Heimildir:
Árni Björnsson. 1993. Saga daganna. Mál og menning, Reykjavík.
[Jón Árnason.] 1966. Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri. Safnað hefur Jón Árnason. II.
Hin íslenska Wikipedia
Tengdar greinar
Framsókn og Sjálfstæðisflokkur stjórna Fjarðabyggð næstu fjögur árin
“Jón Björn Hákonarson oddviti framsóknarmanna verður forseti bæjarstjórnar og Jens Garðar Helgason oddviti sjálfstæðismanna verður formaður bæjarráðs út kjörtímabilið. Þá
Fyrirtækið Og synir ehf klárar að byggja Skólaveg 98-112
Við sögðum frá því fyrir tveim árum að Fjarðabyggð hefði samþykkt að selja Fylki ehf ófrágengna sökkla við Skólaveg 98
Peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka
Kona um sjötugt gerði sér ferð í bankann sinn til að fá sér debetkort. Henni voru allar bjargir bannaðar, eftir