Ellert B Schram segir eldri borgara sniðgengna í fjár- og fjáraukalögum

Ellert B Schram segir eldri borgara sniðgengna í fjár- og fjáraukalögum

Ellert B Schram

Ellert B. Schram (Sf)

„Hæstv. forseti. Í stuttri ræðu sem ég flutti hér fyrr í vikunni gerði ég það að umtalsefni hvað þeir eldri borgarar fá í ellilífeyri frá almannatryggingum sem ekkert hafa annað milli handanna og minnti á að greiddar eru 239.500 kr. á mánuði til þess fólks og svo er tekinn skattur af þeirri greiðslu. Ellilífeyrir er sem sagt langt fyrir neðan öll framfærsluviðmið og hefur í raun dregist aftur úr á undanförnum árum.

Í nýsamþykktu fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir 3,6% hækkun, sem er náttúrlega ekkert annað en hungurlús. Fjármálaráðherra var því miður fjarstaddur á þeim fundi á mánudaginn og ég beini því tali mínu til hans þegar tækifærið gefst.

Starfshópur var skipaður í vor til að fara yfir þessa stöðu en nú, hálfu ári seinna, hefur nefndin ekki enn sent frá sér neinar tillögur. Þegar ég gerði þessa sorglegu stöðu að umræðuefni í fyrradag var ekki annað að heyra en að þingheimur tæki undir með mér um að hér þyrfti að gera betur.

Ég hef fengið tækifæri til að setjast inn á Alþingi 79 ára gamall og mitt eina verkefni er í rauninni að tala fyrir hönd eldri borgara sem verst standa og minnst eiga. Ég hef fylgst með afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins. Ég hef setið á fundi fjárlaganefndar og séð og lesið fjármálaáætlun ríkisins fyrir næsta ár og frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2018. Hvergi er minnst á neina búbót til eldri borgara.

Ég kem ekki í þennan sal á fótboltaskóm til að sparka í einn eða neinn. Ég er heldur ekki á inniskóm (Forseti hringir.) til að slappa af. Erindi mitt í þingsal er að gera mitt besta til að minna þingmenn á aldrað fólk sem býr við fátækt, veikindi, einangrun og tómleika. Það fólk á inni hjá okkur hinum (Forseti hringir.) að rétta þeim hjálparhönd.

Þess vegna nota ég tækifærið til að varpa þeirri spurningu til fjármálaráðherra að hann upplýsi mig og þjóðina hvort við séum að missa af lestinni eða til standi að sniðganga eldri borgara. (Forseti hringir.) Ég bið um svar og yfirlýsingu um að tekið verði tillit til eldri kynslóðarinnar og enn sé ráðrúm af hálfu stjórnvalda til að taka mark á gömlum karli sem hér hefur dottið inn og á hingað erindi í þágu elstu kynslóðarinnar.“

Bjarni Benediktsson

Fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

„Virðulegi forseti. Við erum á Íslandi í dag með gott kerfi lífeyrisréttinda, mjög háa atvinnuþátttöku og lágt atvinnuleysi og erum í raun og veru með fullfjármögnuð lífeyrisréttindi, þ.e. þau réttindi sem er verið að gefa út og hafa áður verið gefin út eru u.þ.b. fullfjármögnuð. Þetta veit á gott fyrir framtíðina.

Vandi okkar snýr að þeim sem eru komnir á lífeyrisaldur en náðu ekki, eins og hv. þingmaður fer hér yfir, að nýta starfsævina til að tryggja sér góð eftirlaun. Við höfum á undanförnum árum gert mikið átak í að rétta stöðu þessa hóps. Þess vegna verð ég að andmæla því sem hv. þingmaður segir þegar hann heldur því fram að þessi hópur hafi setið eftir. Hann hefur ekki setið eftir, kaupmáttur ellilífeyrisbóta hefur stórvaxið á undanförnum árum. En við viljum gera betur, það er hárrétt.

Ég vil sérstaklega taka undir með hv. þingmanni þegar hann beinir sjónum sínum að þeim sem eru í veikastri stöðu, þeir sem ekki hafa tækifæri til að afla sér atvinnutekna, t.d. þeir sem hafa engin lífeyrisréttindi, engar fjármagnstekjur, engar aðrar bjargir en þær sem felast í bótum almannatrygginga. Það er fólkið sem er í veikastri stöðu. Ég hef ávallt talað fyrir því úr þessum stól að eftir því sem styrkur okkar vex til þess að standa betur á bak við þá sem höllum fæti standa í samfélaginu þá eigum við að beina sjónum okkar meira að þessum hópi.

Ég er hins vegar oft í átökum í þessum þingsal um það hvernig við eigum að ráðstafa fjármununum og margir vilja afnema allar skerðingar til þeirra sem geta verið í fullu starfi. Við höfum hækkað frítekjumörkin vegna atvinnutekna, en ef menn afnema þau með öllu þá væri það mjög kostnaðarsamt fyrir ríkissjóð, á sama tíma og það myndi í engu gagnast þessum hópi.“

Ellert B. Schram (Sf):

„Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svarið. Við erum kannski ekki að öllu leyti sammála um hvernig þetta kerfi eigi að virka en við erum sammála um að taka á þeim vandamálum sem stór hópur eldri borgara býr við með því að fá þá upphæð sem ég nefndi áðan frá almannatryggingum, sem er náttúrlega ekki bjóðandi. Ég treysti því hins vegar að hæstv. ráðherra geri tilraun og láti á það reyna að hjálpa þeim sem verst standa. Það er það sem ég er að tala um og þar eigum við að byrja og svo sjáum við til hvernig við getum breytt kerfinu að einhverju leyti í framtíðinni eða á næstu árum. Þetta fólk er komið á þann aldur að það getur ekki beðið lengi. Þetta er spurningin um hvort við viljum hjálpa því að njóta lífsgæða áður en yfir lýkur.“

Fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

„Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en tekið undir þetta göfuga markmið sem hv. þingmaður lýsir hér. Ég vil síðan í stærra samhengi hlutanna benda á mikilvægi þess að við séum að ganga úr skugga um að þær skuldbindingar sem við gefum til langrar framtíðar séu fjármagnaðar þannig að við getum staðið undir þeim þegar að því kemur. Þetta er auðvitað stórt mál sem er erfitt að tæma í tveggja mínútna og einnar mínútu andsvörum. Það er flókið þetta samspil ýmiss konar réttinda sem fólk á, t.d. í lífeyriskerfum og síðan réttinda sem er að finna í almannatryggingakerfinu. Við þurfum að gæta þess að hafa skerðingarnar ekki of miklar. Auðvitað þurfa að vera frítekjumörk fyrir atvinnutekjur, fjármagnstekjur, aðrar tekjur eins og lífeyristekjur en sérhver hreyfing, vegna þess hve stór hópurinn er, til breytinga á skerðingarmörkum getur verið mjög útgjaldamikil. Þess vegna (Forseti hringir.) er þessi hópur að störfum, til að fara yfir það hvar við getum gert breytingu sem kemur að mestum notum í anda þess sem hv. þingmaður er hér að telja fram og um það snýst vinnan. Fjármálaáætlun lýsir því síðan hvert svigrúmið er til framtíðar.“


Tengdar greinar

Heilbrigðiseftirlit Austurlands

Ársskýrsla Heilbrigðiseftirlits Austurlands fyrir árið 2013 er komin út, hana má skoða hér Í niðurlagi skýrslu segir: “Í þjóðfélagsumræðunni er

Samningur um almenningssamgöngur á Austurlandi

SvAust ehf. tekur að sér að sjá um allan akstur sveitarfélaganna á Austurlandi sem unnt er að flokka sem almenningssamgöngur

Flugfélag Íslands – Air Iceland Connect

Hvað er plebbalegra en að skýra íslenskt flugfélag sem heldur uppi áætlunarflugi frá Reykjavík til Akureyrar og Egilsstaða Air iceland

Engar athugasemdir

Skrifa athugasemd
Engar athugasemdir! Þú getur verið fyrst/ur til skrifa við þessa færslu!

Skrifa athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.