Er krónan að þjóna íslendingum eða er hún handbendi fjármagnseigenda?

Er krónan að þjóna íslendingum eða er hún handbendi fjármagnseigenda?

Sumir telja erfiða daga krónunnar Wow Air að kenna.  Þar er innanbúðar fjárfestir með lítið eigið fé að berjast við að halda úti nokkrum leiguflugvélum. – Aðrir segja Primera Air skemma fyrir krónunni, þar er annar fjárfestir á kennitöluflakki og með lögfestu í útlöndum. – Er fólk virkilega að trúa því að þessir tveir menn séu að fella gengið okkar um heil 20 prósent á 6 mánuðum?

Þá heyrist sagt að gengi krónunnar sé handstýrt úr Seðlabankanum, og svo eru þeir til sem segja dvínandi væntingar í ferðaþjónustu orsökin. Og enn aðrir telja að markaðurinn sé að leita jafnvægis? – Bullið og þvælan á sér engin takmörk þegar orsaka gengislækkunar krónunnar er leitað.

Svo eru þeir til sem eru gapandi hissa yfir því hversu lengi krónunni hafi tekist að halda verðgildi frá síðasta hruni. Þessum sömu hefur aldrei tekist að hafa trú á gjaldmiðlinum okkar.

Svartsýnir krónuspekingar benda ítrekað á að krónan fái ekki þrifist til frambúðar, hún sé bara veikur gjaldmiðill á brauðfótum sem fákænir menn séu að krukka í frá degi til dags.

Innganga okkar í Evrópska efnahagssvæðið EES hefur fært okkur bætta stjórnsýslu og margvísleg aukin réttindi meðal þjóðanna. – Við eigum að ganga í ESB og taka upp evru. Með upptöku evru kæmum við í veg fyrir sífelldar undarlegar gengisfellingar þegar verkast vill. Með evruna að vopni, gætum við hvatt verðtrygginguna fyrir fullt og allt, og jafnframt lækkað vexti niður í það stig sem helstu viðmiðunarþjóðir okkar búa við.

Gengisfellingar, eins og við þekkjum þær í dag, sem er ætlað að rétta af hag einstakra þjóðfélagshópa myndu heyra sögunni til. Krónan ýtir undir spákaupmennsku, hún er orsök verðtryggingarinnar og hún sveiflast til og frá eftir því hvernig vindar blása hverju sinni. – Til eru þeir sem alltaf græða á krónunni; þar má nefna eigendur verðtryggðra fjárskuldbindinga og aðrir fjármagnseigendur og spákaupmenn. Hér á árum áður var hagur fiskvinnslunnar jafnan réttur af með gengislækkunum.

Nær 20 prósenta gengislækkun krónunnar á 6 mánuða tímabili, rýrir kaupmátt launa.  Verðbólgan fer á skrið og hefur bein áhrif á verðtryggðu lánin. Vörur og þjónusta hækkar úr hófi.

Þeim sem ekki þekkja til íslenska hagkerfisins má benda á, að krónan okkar, stolt þjóðremdra íslendinga, er enginn alvöru gjaldmiðill. – Hún er handbendi íslenskra kapítalista og braskara. Hún svíkst undan og tekur að rýrna þegar komið er að því að vinnandi fólk þarfnast leiðréttingu launa sinna.

Gengisfelling, atburðarrásin er venjulega þessi

Fyrsta stig. Líður að samningagerð. – Gengið tekur að síga.
Annað stig. Vörur og þjónusta hækkar í verði.
Þriðja stig. Hófleg launahækkun.
Fjórða stig. Gengið lækkar enn frekar.
Fimmta stig. Vörur og þjónusta hækkar enn frekar og verðtryggingin hækkar húsnæðislánin okkar.

Niðurstaðan er eitt stórt núll. Þeir sem síst skyldu hafa tapað, hinir fá allt. – Verðlagshækkanirnar og verðtryggðu lánin sjá til þess að fólkið sem var að berjast fyrir bættum hag fjölskyldna sinna, -ber skarðan hlut frá borði. Gjarnan er þeim sendur tónninn frá atvinnurekendum og ríkisstjórn: “Við sögðum ykkur að vera hófleg í kröfum ykkar!.”

-Í framhaldinu er svo komið þar sögu að Kjararáð þarf að hækka laun elítunar eins og allra hinna.


Tengdar greinar

Nett hjólhýsi

Ótrúlega snjöll útfærsla á hjólhýsi. Sjá meðfylgjandi video.

Loksins hætti að rigna

Fallegt veður í dag á Fáskrúðsfirði. Sólin sást í fjallatoppum yfir miðjan daginn, nú er sá árstími að hún er

Hestamenn ánægðir með framtakið

Hann Björgvin hjá áhaldahúsinu varð vel við bón hestamanna þess efnis að lagfæra gatnamót vegarins niður að hesthúsahverfinu. Vegaspottinn er

Engar athugasemdir

Skrifa athugasemd
Engar athugasemdir! Þú getur verið fyrst/ur til skrifa við þessa færslu!

Skrifa athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.