Excel fræðingar á villigötum

Þegar upptaka evru er nefnd, fara Excel fræðingarnir á fullt við að reikna út að krónan sé ágætur gjaldmiðill. Það sé hagstjórnin sem sé biluð, en ekki krónan. – Þeir komast á flug og mata Excelinn sinn á hagtölum 230 ríkja sem búa við evru. Niðurstaðan er jafnan sú að krónan sé bara ágæt fyrir okkur, “síst hærri vextir og hagvöxtur með ágætum.”
Excel maðurinn gleymir, viljandi eða óviljandi, að mata inn í forritið sitt, að upptaka evru er ekki það eina sem málið varðar. Heldur hitt, að með upptöku evru þyrftum við að breyta hagstjórninni, sem eins og fræðingarnir segja, er biluð.
Af hverju er hagstjórnin biluð? Jú, hagstjórnin bilar þegar ráðamenn fella gengi krónunnar. Hún, krónan, er notuð sem hagstjórnartæki sem færir eignir og fjármuni til í þjóðfélaginu.
Með upptöku evru og tengingu hennar við stærra hagkerfi, fengist stöðugleiki, þar sem slíkar eignatilfærslur heyrðu sögunni til.