Fátækt á Íslandi – Umræða á Alþingi

Fátækt á Íslandi – Umræða á Alþingi

Inga Sæland

Alla umræðuna má sjá á Video hér fyrir neðan.
Upphafsræða Ingu Sæland 1. flutningsmanns: “Virðulegi forseti. Sú umræða sem ég hef kosið að koma með hér og nú verður aldrei of oft kveðin. Staðreyndin er sú að í dag erum við á toppi hagsveiflunnar. Í dag hefur stór hluti landsmanna það virkilega gott og fær að njóta þess sem við erum að uppskera með tilkomu auðlindar ferðamanna og öðru því sem hefur gert þann hagvöxt að veruleika sem við horfumst í augu við. En það breytir ekki þeirri staðreynd að þessi hagsæld nær ekki til allra. Þess vegna varð Flokkur fólksins til og þess vegna stendur þessi kona hér og nú.

Það er enn þá nokkuð ljóst að um 10% barna okkar líða skort. Samkvæmt skýrslu UNICEF á Íslandi sem kom út í janúar 2016 líða 9,1% barna hér mismikinn skort, bæði félagslegan og efnislegan. Það breytir heldur ekki þeirri staðreynd að þessi börn eiga fjölskyldur, það eru þúsundir Íslendinga sem búa við fátækt, fátækt sem er skattlögð. Ef eitthvað er þjóðarskömm, ef það er eitthvað sem ég get skammast mín fyrir þegar ég segist vera Íslendingur er það að ég þarf að bæta þessu við: Og vitið þið hvað, við getum ekki lifað af í allri hagsældinni nema með því að skattleggja fátækt fólk. Þannig förum við að því að komast af.

Þess vegna hef ég valið að koma með fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra. Það er núna, þegar við erum að fara að greiða atkvæði í 3. umr. fjárlaga sem fór á ljóshraða í gegnum þingið, sem væri kannski möguleiki að breyta hlutunum til batnaðar. En það virðist því miður ekki vera mikill vilji til þess. Til að mynda er ýmislegt hægt að gera sem kostar ekki krónu, hæstv. fjármálaráðherra, en sem myndi skila sér í stórauknum og bættum hag heimilanna í landinu. Þar má t.d. nefna húsnæðislið sem er inni í vísitölu og sem hefur með stórkostlegum fjármagnsflutningum hækkað greiðslubyrði heimilanna um tugi milljarða á ári. Hvað myndi ríkissjóður tapa miklu á því að taka þennan húsnæðislið burt og um leið færa þessa milljarða aftur til fjölskyldna sem eru að sligast undan verðtryggðum lánum sínum? Ekki neinu. Það eru aftur á móti fjármagnsstofnanirnar, fjármagnseigendurnir sem myndu einhverju tapa.

Nú ætla ég að dúndra upp stóru gleraugunum svo ég sjái spurningarnar og fari rétt með þær. Í fyrsta lagi langar mig að spyrja: Telur hæstv. fjármálaráðherra að fjárlagafrumvarpið sýni á fullnægjandi hátt vilja hæstv. ríkisstjórnar til að útrýma fátækt barna á Íslandi og þá hvernig? Jú, stórt er spurt, en ég vona að þú svarir mér núna, hæstv. fjármálaráðherra, því að mér hefur oft fundist svörin eiginlega daga uppi og verða ekki að neinu. Eftir að ég hef spurt um eitthvað sit ég eftir með enn þá fleiri spurningar og hef í rauninni aldrei fengið neitt svar.

Í öðru lagi: Er hæstv. ráðherra sáttur við þá örbirgð sem tæplega 10% íslenskra barna búa við? Ef ekki, hvað vill þá ráðherrann gera til að koma þeim til hjálpar? Þetta er í rauninni fyrri hlutinn af því sem ég er að tala um hér vegna þess að nú kemur í ljós að um áramótin á að hækka framfærslu bótaþega eða réttara sagt lífeyrisþega almannatrygginga um 4,7%. Einu sinni enn er verið að þverbrjóta 69. gr. laga um almannatryggingar, þar sem í 1. mgr. er algjörlega skýlaust tekið fram að miða eigi við almenna launaþróun í landinu. Ef sú launaþróun er hins vegar lægri kemur fram í 2. mgr. 69. gr. að þá skuli hins vegar hækka bæturnar eða meta samkvæmt vísitölu neysluverðs. Í þessu tilviki er nokkuð ljóst að launaþróun í landinu hefur verið langt umfram það sem segir til um í 2. mgr. 69. gr. og almennt hefur verið notuð hér þegar verið er að fleygja þessari ölmusu í fólk sem er að sligast undan byrðinni og sér varla fram á næsta dag af áhyggjum. Þetta er fólk sem á líka börn, hæstv. fjármálaráðherra, sem þarf að hugsa um. Við erum að tala um þúsundir Íslendinga og við skulum ekki gleyma því. Það er skylda okkar hér, 63, að standa með fólkinu sem kemur (Forseti hringir.) okkur hingað og vinna fyrir það með sæmd og sóma.”


Tengdar greinar

Sólin er mætt í Fáskrúðsfjörðinn

Það var víst í gær 28. janúar sem við hefðum átt að sjá sólina hér niður í þorpi, en vegna

Náttúrupassinn í víðara samhengi

Það er ótrúlegt að ríkisstjórnin ætli sér að bæta enn einum skatti á almenning svo kosta megi nauðsynlegar framkvæmdir á

Innanlandsflug sem almenningssamgöngur – Fróðleikur

Samstarfshópur atvinnuþróunarfélaga og Byggðastofnunar um innanlandsflug tók saman svör við spurningum sem hópurinn fékk í tengslum við skosku leiðina. –

Engar athugasemdir

Skrifa athugasemd
Engar athugasemdir! Þú getur verið fyrst/ur til skrifa við þessa færslu!

Skrifa athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.