Fjarðabyggð og hestamenn á Fáskrúðsfirði

Fjarðabyggð og hestamenn á Fáskrúðsfirði

utreidar_banndar123Fjandskapur bæjaryfirvalda gagnvart hestamönnum hér á Fáskrúðsfirði hefur komið fram með ýmsum hætti á undanförnum árum. Hefðbundnar reiðgötur út frá hesthúsabyggðinni voru einn daginn undirlagðar bannskiltum, þar sem á var mynd af knapa á hestbaki og myndin yfirstrikuð með rauðu, en slíkt skilti merkir eins og flestir vita, að umferð hesta með knapa á baki, sé bönnuð. Þessu var mótmælt hástöfum af hestamönnum og að endingu voru skiltin tekin niður.

Ein birtingarmyndin er, að Goðatún, gatan í hesthúsahverfinu okkar, fæst ekki snjómokuð nema eftir því sé sérstaklega gengið. Sama má segja um viðhald og ofaníburð. Snjóplógar og traktorsgröfur fara gjarnan fram og til baka eftir næstu götu við hliðina, (Nesveg) þótt þar sé ekkert eftir til að skafa, en láta ógert að skafa veginn okkar þótt hann sé vart fær öðrum bílum en jeppum. – Þetta er bagalegt á vetrum, því hestamenn þurfa að komast kvölds og morgna að húsum sínum til gegninga, sama hvernig viðrar.

Það nýjasta er að umhverfisstjóri Fjarðabyggðar er að tuddast í 3-4 hestamönnum á Fáskrúðsfirði og gerir þeim að greiða fermetra- og hektaraverð fyrir alla hrossabeit, hvort sem hún er við hesthúsin þeirra eða inn í dal. Hundsi þeir ráðslagið, haldi áfram að beita hrossum sínum í nærumhverfinu án þess að greiða uppsett leiguverð, er þeim gert að sæta fjárnámi og upptöku eigna. – Þá er hestamönnum att hverjum gegn öðrum með því að taka allt land af þeim og bjóða það til leigu þeim sem hafa nægt fjármagn til að leigja sér stóra skika. Hinum sem minni fjárráð hafa, gæti sú staða blasað við að þeir sjái sér ekki fært að stunda hestamennsku lengur.

Að endingu, látum hestamann á Fáskrúðsfirði hafa orðið:
“Í þau ár sem ég hef átt hesthús hér á Fáskrúðsfirði, hef ég haft aðgang að beitarhólfi sunnan við hesthúsið mitt. Beitarhólf þetta fylgdi með í kaupunum til nytja og þar áður var það nýtt í áratugi af fyrri eiganda án endurgjalds. – Nú ætlar bæjarfélagið að taka þetta hólf af mér fyrirvaralaust og leigja það öðrum ef ég geng ekki til samninga um það leiguverð sem bæjarfélagið setur upp fyrir landið. – Þá hef ég haft endurgjaldslausa beitaraðstöðu í landi Kirkjubóls gegn loforði um góða umgengni og skil að hausti. – Þetta hefur gengið vel og án athugasemda. – Landið hefur batnað til muna, það aldrei ofbeitt, en laust við alla sinu að hausti. – Nú hyggst bæjarfélagið taka beitina af mér til þess að græða einhverja aura, eða hafa landið ónytjað ella. Ónytjað land að hausti er undirlagt fyrir hugsanlegan sinubruna, sem koma má í veg fyrir með hóflegri nýtingu.” Segir hann og hann heldur áfram “Við hestamenn greiðum fasteignagjöld af hesthúsum okkar. Við höfum ekki notið styrkja á við önnur tómstunda- og íþróttafélög innan bæjarfélagsins. – Það eina sem við höfum fengið út úr bæjarfélaginu, eru sex gamlir ljósastaurar. Þeir fengust eftir mikla eftirgangssemi og undirskiftasöfnun. Þetta erum við þó þakklátir fyrir. – Við höfum í fullu samráði við bæjarfélagið beitt hrossum okkar á hina og þessa skika í nærumhverfinu. Þar höfum við staðið í þeirri trú að hagsmunir okkar og bæjarfélagsins færu saman með tilliti til óhófslegs sinuvaxtar ásamt brunahættu hafi umrædd beit ekki verið nýtt. – Helsta viðhorf okkar til þessa hafa verið að fá að vera í friði og spekt með okkar hross.”


Tengdar greinar

Fjarðabyggð í stríði við hestamenn

Bæjarráð kom saman þann 23. janúar sl. og ræddi framlagt bréf hestamanna og búfjáreigenda á Reyðarfirði sem fjallar um nýjar

Austurbrú skilar MAKE by til SAM-félagsins

Nú í byrjun september undirritaði Austurbrú samning við SAM-félagið, grasrótarfélag skapandi fólks á austurlandi. Samningurinn kveður á um yfirfærslu verkefnisins

Nýtt ár, fjölskyldan í heimsókn

Stóru stundirnar eru þegar börn og barnabörn ásamt systkinum koma í heimsókn. Margt var brallað um áramót, flugeldum skotið upp

Engar athugasemdir

Skrifa athugasemd
Engar athugasemdir! Þú getur verið fyrst/ur til skrifa við þessa færslu!

Skrifa athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.