Gisting í Vogafjósi, Mývatnssveit

Gisting í Vogafjósi, Mývatnssveit

SONY DSCVið hjónin urðum veðurteppt á ferð okkar austur á firði frá Akureyri.

Lögðum af stað í rjómalogni og sólskini, en Þegar á Mývatn var komið var farið að hvessa að norð-austan, og okkur sagt að ófært væri yfir Mývatns- og Möðrudalsöræfi.

Við hugleiddum í fyrstu að gista í bílnum yfir nóttina, en þar sem allra veðra var von, ákváðum við að koma við í versluninni á staðnum og spyrjast fyrir um gistimöguleika. Okkur var bent á tvo staði. Annar þeirra, Vogafjós varð fyrir valinu. Ekki leist okkur á aðkomuna í fyrstu. Útlendingur sem við keyrðum fram á við afleggjarann að sveitabænum, benti okkur á lágreista byggingu fyrir aftan sig. Við keyrðum að húsinu. Gluggaröð var með húshliðinni, í hverjum glugga mátti sjá að kýr voru innandyra. Við ókum áfram meðfram húsinu, augljós var að þetta var fjós og bar því nafn með rentu. – Þarna voru einungis stórgripir á þéttskipuðum básum???

Við litum hvert á annað og vorum svolítið ráðalaus yfir því sem við okkur blasti. Ákváðum samt að ganga fyrir hornið og kanna málið. Jú, á hinni hlið fjóssins var snyrtilegur veitingastaður sem bauð upp á mat, og gistingu gátum við fengið í smáhýsi handan við aðalbrautina.

Gistingin var sanngjarnt verðlögð og maturinn, vel útlátin kjötsúpa, bragðaðist vel. – Ekki skemmdi fyrir að fylgjast mátti með gegningum og mjöltum út um glervegg, meðan á borðhaldi stóð.
————————————————————————————————————–
Umsögn á vefsvæði Sveit.is
“Vogafjós er hlýlegt og fjölskylduvænt gistihús við Mývatn. Gisting er í 26 vel útbúnum og þægilegum herbergjum með baði og þráðlausu neti. Tveggja manna – og fjölskylduherbergi í boði. – Á veitingastaðnum má gæða sér á ljúffengum heimagerðum afurðum eins og reyktum silungi, hverabrauði, tvíreyktu hangikjöti og ostum. Gestum veitingastaðarins býðst að fylgjast með þegar kýrnar eru mjólkaðar daglega kl. 7:30 og 17:30 og jafnvel smakka spenvolga mjólk beint úr kúnum. Á staðnum er einnig sveitabúð þar sem má kaupa afurðir búsins auk handverks. – Vogafjós er vel staðsett við Mývatn. Fjölmargir áhugaverðir staðir eru í nágrenninu s.s. Krafla, Dimmuborgir og Jarðböðin við Mývatn. Á svæðinu er einnig fjölskrúðugt fuglalíf. Sveitin er ekki síður falleg á veturna og staðsetningin er tilvalin fyrir þá sem hafa áhuga á norðurljósunum. – Vogafjós býður einnig upp á skemmtilega aðventupakka með gistingu, mat, heimsókn á Fuglasafn Sigurgeirs, slökunarferð í Jarðböðin og heimsókn til jólasveinanna í Dimmuborgum.”


Engar athugasemdir

Skrifa athugasemd
Engar athugasemdir! Þú getur verið fyrst/ur til skrifa við þessa færslu!

Skrifa athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.