Halldóra Mogensen um borgaralaun

Halldóra Mogensen um borgaralaun

Halldóra Mogensen. mynd af alþingisvef.

Flutningsmenn: Halldóra Mogensen, Björn Leví Gunnarsson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson, Smári McCarthy, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.

Forseti. Undirstaða hugmyndafræðinnar um borgaralaun á rót sína að rekja í rit Thomas Paine frá 1797 sem nefnist Agrarian Justice. Meginhugmyndin er að verðmæti náttúruauðlinda sem ekki hafa verið framleidd af neinum en sem fámennur hópur hefur sölsað undir sig ætti að dreifast jafnt til allra. Arðinn af þessum auðlindum, sem eru í raun sameiginleg eign allra borgara, ætti að skattleggja og deila. Þessi arður, eða laun, væri eðlilegur og meðfæddur réttur allra borgara. Paine sagði, með leyfi forseta:

„Það er ekki góðgerðarstarfsemi, heldur réttindi, ekki ölmusa heldur réttlæti, sem ég tala fyrir.“

Það eru einmitt þessi hugtök, réttindi og réttlæti, sem liggja að baki hugmyndinni um borgaralaun. Borgaralaun eru einnig þekkt sem skilyrðislaus grunnframfærsla. Ef við ímyndum okkur núverandi bótakerfi án skilyrða og skerðinga erum við í raun að hugsa um borgaralaun. Í sinni einföldustu mynd er hugmyndin sú að hver og einn borgari fái greidda framfærslu, óháð búsetu, stöðu heimilis, aldri, tekjum og án allrar kröfu um að einstaklingur hafi verið í vinnu áður eða sé viljugur að taka þá vinnu sem er í boði.

Árið 1928 spáði breskri hagfræðingurinn John Maynard Keynes því að tækniþróunin yrði slík að vélar ættu eftir að gera vinnuframlag mannfólks óþarft. Eftir 100 ár þyrfti enginn að vinna fyrir afkomu sinni. Keynes sá fyrir sér að maðurinn myndi losna undan þrúgandi efnahagslegum áhyggjum, stóra viðfangsefni komandi kynslóða yrði að nýta frítímann sem tæknin og vísindin ættu eftir að færa þeim til að njóta lífsins skynsamlega og í sátt og samlyndi. Spádómar Keynes um tækniþróunina hafa meira og minna gengið eftir, vélmenni og tölvubúnaður hafa í stórum stíl útrýmt erfiðum og einhæfum störfum, þróunin mun halda áfram.

Í rannsókn frá Oxford-háskóla voru fremstu rannsakendur gervigreindar veraldar spurðir hvenær þeir teldu að gervigreind myndi skara fram úr mannfólki á hinum ýmsu sviðum. Norður-amerískir rannsakendur töldu að gervigreind myndi taka yfir á um 74 árum en asískir kollegar þeirra sögðu að það myndi gerast á næstu 30 árum. Hvernig sem á það er litið mun gervigreind áður en langt er um liðið sýna af sér yfirburðaskilvirkni á flestum ef ekki öllum sviðum. Áskorunin felst í því að snúa þessu okkur í hag. Það gæti orðið mörgum til blessunar og mögulega samfélaginu öllu ef vélmenni tækju við erfiðum og einhæfum störfum. Vandamálið er að laun eru eingöngu tengd við vinnu sem gerir það að verkum að með aukinni sjálfvirknivæðingu er afkoma okkar í hættu. Með sjálfvirkni starfa dreifast tekjur ekki á sama hátt og þær hafa gert. Þegar vélarnar taka við störfum nokkur hundruð manna í fyrirtæki verður öll veltan eftir hjá eigandanum og dreifist ekki til starfsmanna. Að óbreyttu mun þessi þróun stuðla að enn frekari misskiptingu og ójöfnuði.

Hvaða áhrif mun sjálfvirknivæðingin hafa á verkalýðshreyfingu í framtíðinni? Hugsið ykkur hversu erfitt það verður að berjast fyrir auknum tekjum í framtíð þar sem tæknin býður upp á ódýrari og árangursríkari lausnir en mannað vinnuafl. Bætum svo við þessar áhyggjur áhyggjum af hnattvæðingunni og ódýru vinnuafli erlendis. Í núverandi kerfi þar sem tekjur og þar af leiðandi afkoma er háð starfi mun vinnuaflið hafa litla sem enga samningsstöðu. Tekjum verður haldið niðri vegna hættunnar á að störfunum verði annaðhvort útvistað til ódýrara vinnuafls erlendis eða til vélmenna. Ekki verður þetta til að bæta þegar mjög erfiða stöðu á vinnumarkaðinum.

Hvernig valdeflum við launafólk til að bæta stöðu sína á vinnumarkaðinum? Hvernig valdeflum við þá einstaklinga sem eru mestmegnis konur sem sinna ósýnilegu störfunum í samfélaginu, mikilvægustu störfum samfélagsins sem eru ekki metin til fjár í núverandi kerfi? Barnauppeldið, heimilishaldið og önnur ómetanleg sjálfboðavinna sem fer fram á hinum ýmsu sviðum samfélagsins, vinna sem er unnin af ástríðu, þolinmæði og umhyggju.

Skilyrðislaus grunnframfærsla launar þetta ómissandi framlag til samfélagsins, eykur þannig efnahagslegt sjálfstæði kvenna og lyftir fjölskyldum upp úr fátækt. Þessar spurningar og áskoranir framtíðar eru einmitt ástæða þess að lönd víðs vegar um heim eru að skoða og gera tilraunir með borgaralaun. Finnar hafa hrint í framkvæmd tveggja ára tilraun með borgaralaun fyrir atvinnulausa og mun henni ljúka í desember á þessu ári. Tilraun með borgaralaun hófst í Ontario í Kanada fyrir um ári og er markmiðið að rannsaka áhrif á viðkvæma hópa á vinnumarkaði sem og bætta heilsu og menntun lágtekjuhópa með það í huga að tryggja að allir deili hagvexti Ontario. Fjórar borgir í Hollandi hafa sett í gang tveggja ára tilraunir og verið er að skoða að bæta við tilraunum í fleiri borgum. Tilraun hófst í Barcelona í október í fyrra, borgarstjóri Stocton í Kaliforníu hefur tilkynnt tilraun með borgaralaun sem mun hefjast á næsta ári. Einnig er í spilunum að hefja á næstunni stærstu borgaralaunatilraun sögunnar annars staðar í Kaliforníu.

Forseti. Ég lýk þessari samantekt og spyr hæstv. ráðherra hvort hún hafi kynnt sér hugmyndir um borgaralaun og þær tilraunir sem hafa verið gerðar víðs vegar um heim sem og þær sem eru áætlaðar á næstu árum. Nú liggur fyrir þingsályktunartillaga þess efnis að borgaralaun verði skoðuð og niðurstöður af þeirri vinnu geti orðið til þess að opna og þróa umræðu um framtíð almannatryggingakerfisins. Hver er afstaða ráðherra til þingsályktunartillögunnar?

Forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):
Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hefja máls á þessu áhugaverða efni. Hún nefndi áðan Thomas Paine sem upphafsmanns hugmyndarinnar um skilyrðislausa grunnframfærslu. Það er vissulega rétt, en það má segja að þessar hugmyndir hafi verið lengur til umræðu innan heimspeki og stjórnmála. Til að mynda hlýt ég að nefna Thomas More og frægt verk hans um útópíuna þar sem m.a. var reifuð sú hugmynd hvernig hægt væri að tryggja öllum skilyrðislausa grunnframfærslu eins og það heitir á nútímamáli þó að það hafi kannski ekki heitið það nákvæmlega hjá More í Útópíu.

Hv. þingmaður spurði þá sem hér stendur hvort hún hafi kynnt sér hugmyndir um borgaralaun. Já, það hef ég svo sannarlega Alla 20. öldina hafa verið gerðar tilraunir á þessu sviði. Ég var að lesa þessa bók sem heitir einmitt Utopia for Realists og er eftir hollenskan fræðimann sem hefur skrifað áhugaverð fræðirit, m.a. um tilraunir sem hafa átt sér stað í Hollandi, en hann rekur söguna m.a. til Bandaríkjanna og Kanada á sjöunda áratugnum þar sem ráðist var í tilraunaverkefni um skilyrðislausa grunnframfærslu í tilteknum sveitarfélögum til að vega og meta hvort rétt væri að fara þá leið að afnema í raun þáverandi velferðarkerfi, ef við getum sagt það, og þá er ég auðvitað að tala um atvinnuleysisbætur, örorkubætur, ellilífeyri og allt það kerfi sem við höfum byggt upp, en ráðast í staðinn í slíka grunnframfærslu.

Málið náði það langt að Richard Nixon undirbjó lagafrumvarp um þetta mál sem náði hins vegar ekki fram að ganga. Þessi umræða er ekki ný af nálinni þó að hún hafi fengið aukinn þunga núna, ekki síst vegna þess sem hv. þingmaður nefnir hér sem er tæknivæðingin og hvaða áhrif hún muni hafa á störf okkar og líf. Umræðan um þetta er innlegg í mjög mikilvæga félagslega umræðu sem er í raun spursmálið um það hvaða breytingar komi í kjölfarið á fjórðu iðnbyltingunni.

Jeremy Rifkin hefur fært fyrir því rök í sinni bók sem heitir einfaldlega The End of Work að borgaralaun gætu reynst nauðsynleg af því að með aukinni sjálfvirknivæðingu og aukinni vélvæðingu muni vélar og tækni taka yfir fleiri og fleiri störf og draga úr eftirspurn eftir starfsmönnum, færri verði í vinnu hjá öðrum og fleiri muni skapa sér sína eigin vinnu. Þar eru mjög skiptar skoðanir um hver verði niðurstaðan. Menn hafa bent á að við höfum áður gengið í gegnum iðnbyltingar sem áttu að fækka störfum en fækkuðu ekki störfum í raun heldur urðu til annars konar störf, ný störf fyrir fólk. Þarna takast fræðimenn mjög á um hver raunveruleg áhrif verða.

Síðan hefur verið tekist á um það hvaða leiðir eigi að fara til að mæta því þegar hefðbundin störf tapast og hvort það skili sér í því að fólk skapi sér ný störf.

Rökin hafa líka verið þau að hin opinberu kerfi séu of flókin, þau séu hönnuð af sérfræðingum og snúist um að hafa vit fyrir fólki. Þarna hefur verið mjög heit pólitísk umræða þar sem tekist hafa á þeir sem hafa staðið fyrir því sem við getum kallað skandinavísku velferðarkerfin sem snúast um að byggja upp kerfi sem hvetji fólk m.a. til vinnu, að atvinnuleysisbótakerfið feli líka í sér hvata til vinnu, að við styðjum sérstaklega við þá sem alls ekki geta sótt sér vinnu, eins og öryrkja, og sá stuðningur sé með öðrum hætti en atvinnuleysisstuðningur, svo dæmi sé tekið, og að ákveðnir hvatar séu byggðir inn í kerfið, að þeir sem halda fram borgaralaunum segi þá að með því að afnema allt þetta kerfi spörum við peninga og getum á móti greitt öllum skilyrðislausa grunnframfærslu.

Þá kemur kannski að þyngstu gagnrýninni sem hefur verið höfð uppi á borgaralaunin sem er að ekki hafa verið settar fram raunhæfar leiðir um hvernig ætti að fjármagna borgaralaunin. Upplýsingaþjónusta Alþingis tók saman ágæta samantekt fyrir einu og hálfu ári eða svo, árið 2016, þar sem reynt var að áætla kostnað ríkissjóðs við að innleiða borgaralaun sem miðaðist þá við lágmarkslaunin 300.000 kr. sem búið var að semja um fyrir 2018. Sá kostnaður var metinn 1.200 milljarðar sem voru þá 128% af fjárlögum ríkisins eins og kemur fram í úttektinni. Á móti kemur að vitaskuld myndi sparast kostnaður við velferðarkerfið.

Stóru spurningarnar snúast um hvort borgaralaun myndu duga til framfærslu eða hvaða áhrif aðferðafræðin skilyrðislaus framfærsla myndi hafa á þá hópa sem veikast standa — ég sé að ég þyrfti 20 mínútur — til að mynda öryrkja og þá sem ekki geta sótt sér vinnu til viðbótar við þá framfærslu sem þeir hafa. Við þurfum að svara spurningunni: Myndi þeirra hagur versna við að allir fengju skilyrðislausa framfærslu? (Forseti hringir.) Um leið þurfum við að svara þeirri spurningu hvort þeir sem búa svo vel að vera jafnvel vellauðugir eigi að fá (Forseti hringir.) skilyrðislausa grunnframfærslu frá ríkinu eins og hugmyndafræðin gerir ráð fyrir.

Að lokum, herra forseti, myndi ég vilja segja að ég tel þetta áhugaverða umræðu, umræðu sem við þurfum að taka á vettvangi Alþingis. Ég sé fyrir mér að framtíðarnefnd gæti til að mynda tekið þetta mál til umfjöllunar (Forseti hringir.) og sett þessi álitamál fram með skipulegum hætti því að við þurfum að taka afstöðu til þeirra.

Umræðan fékk misjafnar undirtektir, Ásmundur Friðriksson virtist misskilja efnið, snéri umræðunni á hvolf, taldi að þingmenn fengju veglega launahækkun með upptöku borgaralauna en aðrir lítið sem ekkert. Guðmundur Ingi Kristinsson, sem einnig er vitnað í hér fyrir neðan, misskilur ekki hugmynd málshefjanda um borgaralaun.

Ásmundur Friðriksson (S):
Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka frummælanda þessarar umræðu fyrir að taka málið á dagskrá. Oft er ágætt að hugsa aðeins út fyrir rammann þó að mér lítist ekki alls kostar á hugmyndina um borgaralaun. Það er kerfi sem felur í sér engan hvata til sjálfshjálpar, að mér finnst eftir að hafa aðeins skoðað málið. Þetta er samtryggingarkerfi sem tryggir hverjum borgara lágmarksinnkomu frá hinu opinbera, óháð öðrum tekjum. Það eru sem sagt engir hvatar í því. Borgaralaunum er ætlað að leysa núverandi velferðarkerfi af hólmi og koma í stað örorkubóta, atvinnuleysisbóta, ellilífeyris, námslána, fæðingarorlofs, vaxtabóta, barnabóta og ýmissa annarra bóta sem við notum til að halda undir samfélagið og þá sem minnst hafa.

Er hugmynd málshefjanda að leggja þau kerfi af og taka borgaralaunin upp í staðinn fyrir alla þá málaflokka sem ég taldi upp áðan? Mér finnst augljóst, af skammri skoðun, að þá kæmi minna í hlut hvers og eins og minnst til þeirra sem minnst hafa og meira til þeirra sem hafa það gott, eins og þingmanna. Þetta myndi væntanlega bætast ofan á launin okkar eins og allra annarra, ef ég skil hugmyndina rétt.

Borgaralaun gætu aukið misskiptinguna í samfélaginu sem ég held að við flest viljum ekki sjá. Finnar sem eru með tilraun með borgaralaun í gangi eru að ganga út úr henni. Svisslendingar hafa hafnað borgaralaunum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég held að við þurfum að skoða þetta vel en það er sjálfsagt að líta út fyrir rammann þegar við ræðum framtíðina.

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):
Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég ætla að byrja á að ræða málið á svolítið öðrum grundvelli. Ég ætla að byrja á einni ljótustu setningu sem mér finnst vera í íslenskri tungu: Við ætlum að gera eitthvað fyrir þá sem minna mega sín. Þetta er hrokafullt og þess vegna segi ég: Borgaralaun klingja í eyrum mér. Það er miklu fallegra að fólk geti sagt: Ég fæ borgaralaun.

Við getum sett þetta í samhengi við til að mynda öryrkja, það eru örorkubætur, félagsbætur, barnabætur, vaxtabætur, húsnæðisbætur o.fl. Það er alltaf verið að segja: Nú ætlum við að bæta fólki eitthvað. Þið hafið það svo skítt, við ætlum að bæta það smá. Flestar þessar bætur eru svo skertar, teknar til baka. Svo koma styrkir; bílastyrkir, lyfjastyrkir, alls konar styrkir, styrkir sem fólki eru réttir í dag með vinstri hendinni en jafnvel meira tekið með þeirri hægri og sagt: Ja, þið fenguð helling.

Þess vegna segi ég: Í þessu tilfelli vil ég fá borgaralaun, ég vil að þau byrji þarna. Tökum þetta allt í burtu. Stokkum upp á nýtt. Hugsum upp á nýtt. Byrjum á borgaralaunum hjá öryrkjum, eldri borgurum, atvinnulausum, skólafólki — byrjum þarna. Það væri frábær byrjun. Ég er alveg með það á hreinu að þetta myndi gera okkur gott. Síðan getum við útvíkkað þetta þegar fram líða stundir.

Við vorum að tala um þá sem minna mega sín og nú hlýt ég að vera einn af þeim sem meira mega sín. Ég þarf ekki borgaralaun (Forseti hringir.) en við vitum ekki með framtíðina. Ef við byrjum þarna neðst er það frábært.


Tengdar greinar

Ferð til Akureyrar vegna lækninga

Eftir sneyðmyndatöku hér fyrir austan, þótti nauðsynlegt að senda sjúkling í segulómskoðun á Akureyri, þar sem sneyðmyndataka þótti ekki fullnægjandi.

Leiðrétting – Viðskiptanetið

Okkur hefur borist leiðrétting frá forsvarsmanni Viðskiptanetsins, Jónasi Guðmundssyni. Missagt var í eldri grein okkar; “Er Viðskiptanetið að geispa golunni?”

Slæm þróun í viðskiptum – Er heimabankakerfið að syngja sitt síðasta

Eitt af stærstu fyrirtækjum landsins og jafnframt eitt af olíufélögunum, sendir reikninga með eindaga síðasta dag hvers mánaðar inn í

Engar athugasemdir

Skrifa athugasemd
Engar athugasemdir! Þú getur verið fyrst/ur til skrifa við þessa færslu!

Skrifa athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.