Hert eftirlit með íslenskum öreigum

Hert eftirlit með íslenskum öreigum

poor_manTryggingastofnun fær auknar heimildir til eftirlits með umækjendum bóta, eftir breytingu Alþingis á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og lögum um málefni aldraðra.

Þá kveða lögin á um að skattyfirvöld, Þjóðskrá Íslands, Innheimtustofnun sveitarfélaga, Fangelsismálastofnun, Útlendingastofnun, ríkislögreglustjóri, Samgöngustofa, lífeyrissjóðir, sjúkrastofnanir, dvalar- og hjúkrunarheimili, sveitarfélög, Lánasjóður Íslenskra námsmanna, og viðurkenndar menntastofnanir skulu veita Tryggingastofnun upplýsingar um bótaþega. Þá skulu Tryggingastofnun og Sjúkratryggingar Íslands skiptast á upplýsingum um mat á örorku og öðrum nauðsynlegum upplýsingum. Ennfremur fá læknar og heilbrigðisstarfsmenn Tryggingastofnunar aðgang að sjúkraskrám umsækjenda.

Jafnframt er umsækjendum eða greiðsluþegum og maka þeirra skylt að taka þátt í meðferð málsins meðal annars með því að koma til viðtals, ef óskað er, og veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem teljast nauðsynlegar til að meta bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta.

Samkvæmt lögunum skal Tryggingastofnun reglubundið sannreyna réttmæti bóta, greiðslna og upplýsinga sem ákvörðun um réttindi byggist á.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, var flutningsmaður laganna. Samkvæmt tilkynningu frá velferðarráðuneytinu eiga lögin að stuðla að því að greiðslur til lífeyrisþega verði réttari og dregið verði úr bótasvikum.

Atkvæði eftir þingflokkum:
Björt framtíð: Já sögðu 4 – Fjarverandi 2
Framsóknarflokkur: Já sögðu 10 – Fjarverandi 9
Píratar: Já sögðu 2 – Fjarverandi 1
Samfylkingin: Já sögðu 6 – Fjarverandi 3
Sjálfstæðisflokkur: Já sögðu 12 – Fjarverandi 7
Vinstri hreyfingin grænt framboð: Já sögðu 4 – Fjarverandi 3

Þegar atkvæðagreiðsla þingmanna er skoðuð, má sjá hversu samhuga og öflugt okkar háa alþingi er þegar kemur að því að rannsaka og hafa eftirlit með okkur aumingjunum. Allar lekabittur kerfisins eru virkjaðar á mettíma. Enginn sagði “Nei” við þessum lögum sem heimila varðhundum kerfisins að hnýsast í nánast öll tiltæk gögn einstaklinga sem verða óvinnufærir, eldast eða verða öryrkjar.

Eftir samþykkt frumvarpsins er sjálfsagt að semja örstuttan viðauka, eða ný lög sem m.a. afnema bankaleynd og banna okurálagningu á vöru og þjónustu í allri sinni mynd. – Kvótabrask verði bannað með öllu og stofnun erlendra bankareikninga verði háð leyfi frá Tryggingastofnun Ríkisins eða öðrum haldbærum eftirlitsaðila innan kerfisins. Þeir sem hafa tekjur af atvinnustarfsemi, sem gæti freistað til undanskota á sköttum og skyldum, verði gert að sæta reglulegu eftirliti, bankareikningar þeirra skoðaðir og fjölskylda þeirra kölluð til yfirheyrslna eftir þörfum og geðþótta þeirra sem eftirlitinu stjórna.

Heimildir: Mbl.is – Stjornartidindi.is – Althingi.is


Tengdar greinar

Austurbrú skilar MAKE by til SAM-félagsins

Nú í byrjun september undirritaði Austurbrú samning við SAM-félagið, grasrótarfélag skapandi fólks á austurlandi. Samningurinn kveður á um yfirfærslu verkefnisins

Staða verslunar á Fáskrúðsfirði

Trúlega eru þeir til sem láta sig engu varða hvað nauðþurftir til heimilishaldsins kosta frá degi til dags. – Enn

Innanlandsflug sem almenningssamgöngur – Fróðleikur

Samstarfshópur atvinnuþróunarfélaga og Byggðastofnunar um innanlandsflug tók saman svör við spurningum sem hópurinn fékk í tengslum við skosku leiðina. –

Engar athugasemdir

Skrifa athugasemd
Engar athugasemdir! Þú getur verið fyrst/ur til skrifa við þessa færslu!

Skrifa athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.