Hestamenn óhressir í Fjarðabyggð

Hestamenn óhressir í Fjarðabyggð

horse smilingNú þegar skammdegið brestur á og skammt er í að hestamenn taki hross sín á hús, er vert að fara yfir það sem betur mætti fara hjá okkur hestamönnum.

Á sl. vori barst sú frétt, að Fjarðabyggð hygðist rukka hestamenn um beitarafnot. – Einhverjar bréfaskriftir urðu á milli manna og síðan var horfið frá ætluninni. – Væntanlega af því að hestamennska er sport og íþróttagrein eins og fótbolti, gólf, skíðamennska og annað það sem fólk baukar við í frístundum, -og er oftar en ekki styrkt af bæjarfélögunum.

Þá gerðist það á árinu, að bæjarfulltrúar fóru um hesthúsahverfin og bókuðu hitt og annað sem þeim fannst ólíðandi að hafa á svæðunum án gjaldtöku. Fyrir barðinu á þeim varð hestaflutningabíll, annars vegar og Gámur, hins vegar, en gámur þessi hafði staðið í hverfinu í þrjátíu ár, falinn bakvið þil og nýttur sem hlaða. – Þá fundust tveir bátar, en þeim hafði verið vísað af hafnasvæði árinu áður, vegna framkvæmda við nýja smábátahöfn.

Svo virðist sem ráðamönnum sé uppsigað við hestamenn. Þegar við fluttum hingað til Fáskrúðsfjarðar árið 2007, þótti okkur undarlegt að sjá gul og rauð bannskilti við vegaslóða, þar sem á var mynd af yfirstrikuðum hesti. Skiltið táknaði að umferð með hesta væri bönnuð. – Þetta höfðum við hvergi séð áður, nema fyrir framan þröng jarðgöng. – Þá þykir okkur með ólíkindum að vegaspotti niður á ruslsahauga á Fáskrúðsfirði, njóti lýsingar frá fimm ljósastaurum, meðan hesthúsahverfið okkar má búa við svartasta myrkur í skammdeginu. – Ráðamenn ættu að sjá sóma sinn í að leiðrétta þetta.

Nánar um það

Þegar farið er inn dalinn frá miðbæ Fáskrúðsfjarðar eru tvær samsíða götur á vinstri hönd í újaðri þorpsins. Fyrri gatan er Nesvegur, vel merkt gata með viðunandi götulýsingu. Hún liggur niður að ruslahaug, þar sem hefðbundinn heimsóknartími er 3-4 tímar tvisvar í viku. – Gata þessi er upplýst allan veturinn, án sýnilegs tilgangs, þar sem opnunartímar ruslahaugs eru á þeim tíma dags, sem bjart er, þó um hávetur sé. Hin gatan er Goðatún, hún er ómerkt og óupplýst allt árið, hún liggur um hesthúsahverfið okkar. Á vetrum færist líf í hverfið. Hrossin tekin á hús og þeim þarf að sinna kvölds og morgna í öllum veðrum. Oftar en ekki, eru hestaeigendur á ferðinni í myrkri, kvölds og morgna, eða utan hefðbundins vinnutíma. – Sé brýnt að hafa lýsingu við veginn niður að ruslahaug, má telja nauðsyn á lýsingu til og frá hesthúsahverfinu okkar. – Lifið heil, Gunnar


Tengdar greinar

Léleg kjörsókn á Fáskrúðsfirði

Einungis 55,5% kusu á Fáskrúðsfirði. – Spurning hvort hér sé um landsmet í slakri kjörsókn að ræða? – Kosningaþátttaka fáskrúðsfirðinga

Erfiður morgun – Myndband

Erfiður morgun – Ýttu hér, eða á myndina hér til hliðar til að skoða myndband

Loforð og efndir ríkisstjórna

Um þessa helgi hyggst Samfylkingin fara yfir niðurstöður síðustu kosninga og finna út hvað fór úrskeiðis í kosningabaráttunni og varð

Engar athugasemdir

Skrifa athugasemd
Engar athugasemdir! Þú getur verið fyrst/ur til skrifa við þessa færslu!

Skrifa athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.