Inga Sædal, Flokki fólksins ræðir um fjárlagafrumvarpið – Myndband og texti

Inga Sædal, Flokki fólksins ræðir um fjárlagafrumvarpið – Myndband og texti

Hún Inga Sædal er skeleggur talsmaður fátæka fólksins. Afbragðs góð ræða um misrétti og ranga forgangsröðun í þjófélaginu.

Inga Sæland (Flf):
Virðulegur forseti. Við ræðum í 2. umr. fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar, annað fjárlagafrumvarpið sem núverandi stjórn leggur fram.

Ég hafði eiginlega vonast til þess að sjá eitthvað bitastætt í ljósi allra þeirra yfirlýsinga um hvað allir hafi það rosalega gott og hvað við skorum hátt í meðaltalinu, hvað hagsældin sé mikil, en svo er ekki. Það er í rauninni ekki gert ráð fyrir að bæta kjör þeirra sem höllustum fæti standa, minnihlutahópa eins og öryrkja, um eina einustu krónu.

Mig langar til að byrja á að ræða um Flokk fólksins, þau áherslumál sem við höfum lagt fram, frumvörp og þingsályktunartillögur sem allar eru á sömu bókina lærðar: Við erum að berjast af hugsjón gegn fátækt á Íslandi.

Ég er ekki með neina ræðu eins og venjulega þannig að ég hef bara punkta, og punktarnir mínir eru þessir: Við erum t.d. með frumvarp um 300.000 kr. lágmarksframfærslu, skatta- og skerðingalaust. Skemmst er frá því að segja að hæstv. fjármálaráðherra var inntur eftir því hvað slík aðgerð myndi kosta, að koma lægstu launum, þeirra sem bágast eru staddir, upp í 300.000 kr., skatta- og skerðingalaust. Svarið var svo afspyrnu fáránlegt að það liggur við að ég geti varla sagt það: 159 milljarða, sagði hann. Eins og við hefðum einhvern tíma verið að spyrja að því hvaða myndi kosta að koma milljónamæringum í skattleysi upp að 300.000 kr. Við vorum ekki að spyrja um það. Við erum ekki málsvari milljarðamæringa, við erum það bara alls ekki.

Það sem meira er. Það var öflug greinargerð sem fylgdi frumvarpinu okkar um skattleysi upp að 300.000 kr. fyrir þá sem hafa lökust launin. Staðreyndin er sú að það eru tugir þúsunda Íslendinga sem fá útborgað á bilinu 205.000–242.000 kr. En 300.000 kr., skatta- og skerðingalaust? Það kostar enga 159 milljarða. Það kostar lítið meira en kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins í síðustu kosningabaráttu.

Ég ætla ekki að tala meira um það vegna þess að í lok ræðu minnar ætla ég að segja frá því hvernig við erum búin að finna 77 milljarða kr. — hæglega — til að gjörbreyta áherslum, forgangsröðun, á því sem við erum að horfa upp á í dag hjá hæstv. ríkisstjórn, forgangsröðun sem er svo ömurleg og sem er svo mikil blaut tuska í andlitið á fátæku fólki að það er í rauninni sárara en tárum taki að þurfa að standa hér eina ferðina enn og kalla eftir réttlæti.

Hvað höfum við að gera með OECD-skýrslur sem tala um jöfnuð þegar við vitum að þúsundir fjölskyldna munu standa í röðum fyrir jólin til að óska eftir mat? Hvað höfum við að gera með það? Hvað eigum við að gera með flott excel-skjöl og flottar tölur á blaði á meðan við vitum að fjölskyldur nánast svelta í landinu í dag? Þurfum við alltaf að líta til þeirra sem eru milljónamæringar? Koma með meðaltalið og draga það saman við þá sem ná ekki endum saman? Ég segi: Nei.

Það er ömurleg forgangsröðun og er til þess að drepa málunum á dreif og kasta ryki í augun á landsmönnum. Og eins og þetta, 159 milljarðar, 300.000 kr., skatta og skerðingalaust. Þetta er hlægilegt, hæstv. forseti.

Ég er málsvari lítilmagnans í samfélaginu. Ég er málsvari minnihlutahópa. Flokkur fólksins var stofnaður af hugsjón með það eitt að leiðarljósi að berjast gegn fátækt á Íslandi. Það er sannarlega ekki hægt að sjá að svo sé gert hér og einhver vilji sé í þessum þingsal til að gera það. Annars hefði verið óþarfi að stofna Flokk fólksins í fyrstunni, alger óþarfi. En hér kemur ríkisstjórn eftir ríkisstjórn og reisir rammgerðari og öflugri girðingar og fátæktargildrur utan um þá sem síst skyldi. Hvar er virðingin? Hvar er kærleikurinn fyrir okkar minnstu bræðrum og systrum? Ég kem ekki auga á hann hér.

Til dæmis þetta: Öryrkjar fá enga kjarabót, ekki eina einustu krónu. Það þýðir ekki að koma hingað og tala um 4 milljarða sem urðu síðan óvart að 2,9 milljörðum og segja: Þetta er jú það sem átti að setja í öryrkjana, við erum að bæta stöðu þeirra, við ætlum að breyta kerfinu fyrir þá. Það átti ekki ein einasta króna, auðvitað ekki, að fara í að bæta afkomu þeirra, hækka launin þeirra. Nei, en hins vegar er verið að státa af 3,4% leiðréttingu — í fjárlagafrumvarpinu, tek ég fram — gert er ráð fyrir 3,4% leiðréttingu á afkomu öryrkjanna um áramótin. Takið eftir — leiðréttingu. Ég vil ekki hafa það að á hinu háa Alþingi sé verið að tala um hækkun á bótum eða launum öryrkja. Þetta er engin hækkun, þetta er lögbundin leiðrétting á framfærslu sem er bara hreinlega bundin í lög og á að koma til skoðunar 1. janúar ár hvert.

En jú, breytingartillaga núna gerir ráð fyrir að hækka þetta alveg upp í 3,6%. Því að það á nú að reyna að koma til móts við að láta þá fylgja launaþróun — eða hverju? Ég bara veit það ekki, því að þetta er svo langt frá því að hægt sé að tala um það, þó að einhver fái 3.500 kr. á mánuði núna eftir skatta. Hvers lags grín er þetta? Það er ítrekað verið að vinda tuskuna og slengja í andlitið á fátækasta fólkinu og þeim sem sitja óbættir hjá garði í allri þessari hagsveiflu.

Tölum um starfsgetumatið. Ég get ekki talað um starfsgetumatið öðruvísi en að láta það takast í hendur við krónu á móti krónu skerðinguna, sem ég held að sé heimsmet. Eða ég held það ekkert, ég veit það. Króna á móti krónu skerðing á öryrkjum er heimsmet. Fátækasta fólkið, þessi eini minnihlutahópur á öllu landinu, og sennilega í öllum heiminum, sætir slíkri skerðingu. Þetta er ekki bara mannréttindabrot, þetta er lögbrot. Enda get ég heitið því, þar sem ég stend hér og nú, að það verður látið reyna á krónu á móti krónu skerðingu fyrir dómstólum. Það getur ekki verið mögulegt að hægt sé að sýna annað eins ofbeldi gagnvart einum minnihlutahópi og þessa blessuðu krónu á móti krónu skerðingu.

Starfsgetumatið, já. Hvað er það? Þangað eiga peningarnir að fara. Þangað fara milljarðarnir. Ég veit náttúrlega ekki hvað það kostar að koma með þessa stýrihópa, eins og stýrihópinn sem hefur unnið að þessu málefni og í rauninni veit ég ekki hvað hann er að gera. Ég veit heldur ekki hvað hann kostar, hef ekki hugmynd um það, en eitthvað kostar hann. Á sama tíma hef ég bent ítrekað á að hið eina rétta og sanna starfsgetumat kemur, eðli málsins samkvæmt, frá öryrkjanum sjálfum. Eru það einhverjir sérfræðingar úti í bæ, sem reyna að koma með flott og fínt excel-skjal, sem geta sagt okkur betur en við sjálf hvers megnug við erum á vinnumarkaði? Við skulum ekki gleyma því að á fjórða hundrað öryrkjar með skerta starfsgetu biðja um hlutastörf. Sem eru inni hjá Vinnumálastofnun að biðja um hlutastörf. Vitið þið hvað, virðulegi forseti, þau störf eru ekki til.

Öryrkjar fá venjulega skýr skilaboð. Ef þeir hafa ekki tilkynnt fyrir fram þegar þeir koma í atvinnuviðtal að þeir séu öryrkjar er venjulega ekki sérlega tekið vel á móti þeim í slíku viðtali. Ég hef ítrekað sagt: Gefum fólkinu kost á því að fara út að vinna. Það borgar staðgreiðslu af launum sínum, það borgar sína skatta og skyldur. Ef við reynum að gera það þannig að það haldi almannatryggingalaununum sínum á meðan það er að aðlagast á vinnumarkaðnum, þá uppskerum við ekkert annað en jákvæðni og sigur. Og aukinheldur það sem Svíar og fleiri hafa uppskorið, öryrkjum stórfækkar í kerfinu.

Hér er rekinn þessi svakalegi hræðsluáróður. Staðreyndin: 42 milljarðar á ári fara í þetta kerfi; árið 2030, haldi nýgengi örorku sama áframhaldi, munu það verða 90 milljarðar. Er það þetta sem er verið að bíða eftir? Á starfsgetumatið að redda þessu? Eða myndu öryrkjarnir kannski gera það sjálfir? Ég segi já. Það er nákvæmlega það sem öryrkjarnir myndu gera.

Flokkur fólksins mælti líka fyrir fyrsta frumvarpi sínu í desember 2016. Við endurfluttum það núna, fyrsta frumvarpið sem við fluttum. Það var um afnám skerðinga á launatekjur aldraðra. Það merkilega er að Tryggingastofnun svaraði því í vor hvað það myndi kosta að afnema þær skerðingar á launatekjur aldraðra. Í rauninni var ekkert verið að tala um hversu mikið kæmi af þeim inn í staðinn. Það var rúmur milljarður. Ég er með skýrslu sem unnin var fyrir Félag eldri borgara í Reykjavík sem segir að þessi kostnaður væri jafnvel rúmir 3 milljarðar, en til baka myndi ríkissjóður fá um 4,3 milljarða. Það var auðvitað í breytunni talað um X-fjölda eldri borgara sem myndi halda áfram að vinna. Ef Tryggingastofnun hefur rétt fyrir sér, sem við ættum að gera ráð fyrir, þá myndi ríkissjóður hagnast um hvorki meira né minna en yfir 3 milljarða kr. á ári með því lýðheilsumáli að leyfa eldri borgurum sem treysta sér til að halda áfram að vinna í stað þess að sitja heima fastir í þeirri rammgerðu fátæktargildru sem er verið að smíða utan um þá, enn og aftur.

Ég ætla að halda áfram, virðulegi forseti, að tala pínulítið meira um eldri borgara. Það vill svo einkennilega til að ég hef oft heyrt hér hugtakið fráflæðisvandi. Ég velti fyrir mér: Fráflæðisvandi? Hvað er það? Hvað er fráflæðisvandi? Ég las grein eftir forstjóra Landspítala – háskólasjúkrahúss þar sem hann segir að fráflæðisvandi felist í því, í rauninni, að inn á Landspítala fjölgi endalaust eldri borgurum sem eru tilbúnir að fara heim en þar sé ekkert sem grípi þá, ekkert sem taki við, ekki neitt. Ég túlkaði þetta hugtak þannig að þeir flæði bara ekki nógu hratt út af spítalanum. Fráflæðisvandi? Ég verð að segja að ég er ekki sérlega ánægð með það hugtak, en látum svo vera. Ég fann það ekki upp. En nú skil ég það alla vega.

Frá því ég var í kosningabaráttunni í fyrra hefur eldri borgurum á Landspítala – háskólasjúkrahúsi fjölgað líklega um 28% sem komast ekki heim. Þeir voru þá rétt tæplega 100, nú eru þeir 130, sem þýðir að skortur er á rýmum, bráðainnlagnarrýmum. Hvers vegna skyldum við tala um það að vera hagsýn? Það þurfi að vera með ráðdeild í ríkisbúskapnum, það þurfi að vera með hagsýni í ríkisbúskapnum á sama tíma. — Jú, en við ætlum bara að borga mörgum sinnum meira fyrir hvern einstakling, fastan á Landspítala – háskólasjúkrahúsi frekar en að hjálpa honum við að komast heim, þangað sem hann vill fara og langar til að vera. Hvorki meira né minna en 130 eldri borgarar eru fastir á Landspítala – háskólasjúkrahúsi.

Nú skulum við skoða hvernig ríkisstjórnin forgangsraðar fjármunum okkar, okkar sameiginlegu sjóðum. Talandi um það núna, jú, það hefur bara sjaldan verið annað eins í lagt. Hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir í stjórnarliðinu var nýverið hér og sagði: Við erum að leggja 90 milljarða á tveimur árum í innviðina. Það er nú meira en margur annar, sagði hún.

Við skulum tala um forgangsröðun. Það á að lækka skatta, örlítið, pinkulítið. Það á að lækka þá mikið, þ.e. um rétt rúmt prósent, talað um að það eigi að fylgja vísitölu og alls konar útreikningar eru sem ég gæti engan veginn haft tíma til að reyna að útlista fyrir ykkur, virðulegi forseti, því að ég skil þá ekki einu sinni sjálf. En það eina sem ég skil er þetta: Það kostar ríkissjóð 14 milljarða kr. og þeir sem höllustum fæti standa og fá nú þessa rausnarlegu lækkun — hún dugar ekki fyrir hálfri pítsu á mánuði. Er þetta að hjálpa fátæku fólki á Íslandi í dag? Ég segi nei.

7 milljarðar vegna lækkunar bankaskattsins. Það á að lækka bankaskattinn um 63%. Eins og bankarnir séu í vanda. Ekki hef ég heyrt það. Þetta eru stofnanir sem eru ekki sérlega hátt skrifaðar af fólkinu í landinu. Ég ætla ekki að fara dýpra í það því að þá missi ég mig náttúrlega á flug og það vil ég helst ekki gera, fyrst ég er í þessu virðulega ræðupúlti.

4,3 milljarða kr. lækkun veiðigjalda. Það er auðveldasti hlutur í heimi þegar talað er um að afkomutengja veiðigjöldin, að fara með þau eins og við höfum gert hingað til þegar við erum að telja fram og gefa upp til skatts. Hundruð þúsunda skattskýrslna, 240–250.000 skattskýrslna eru á hverju einasta ári. Það vefst ekki fyrir ríkisskattstjóra að skattleggja okkur hvert og eitt, sérstaklega samkvæmt tekjum okkar. En það virðist vefjast fyrir honum — þó svo að þessi gríðarlega samþjöppun hafi átt sér stað í útgerðinni — að afkomutengja hverja og eina útgerð fyrir sig.

Það er alveg rétt að lítil og sérstaklega smábátar og þeir sem eru að koma nýir inn í greinina eiga í vök að verjast. En við þurfum ekki að lækka veiðigjöldin um 4,3 milljarða sem nýtist ekki síst þeim sem eru milljarðamæringar fyrir og greiða sér milljarða á milljarða ofan út úr auðlindinni okkar í arð á hverju einasta ári. Við eigum að láta þá borga fyrir aðganginn og við eigum að afkomutengja það þannig að þeir sem þurfa á að halda fái eitthvað.

Þetta er einfaldasti hlutur í heimi. Ég skil ekki hvernig allir þeir snillingar sem að þessu koma, sérfræðingar og allir þeir, á ég veit ekki hve miklum launum, geta ekki komið auga á þetta. Ég bara næ því ekki. Ég hélt að ég væri eini lögblindi einstaklingurinn í þessu húsi.

1,7 milljarða kostnaður vegna 1% hækkunar persónuafsláttar fyrir einstaklinga: 536 kr. á mánuði. Ég vil meina, virðulegi forseti, að maður væri jafn dauður og lifandi eftir þessa lúsarhækkun á persónuafslætti, svo ég segi nú ekki meira.

En svo að við tölum um forgangsröðunina eina ferðina enn, ég tek lítið dæmi. Ég er með svo mörg dæmi að ég ætla ekki að leggja fleiri á ykkur. Ég hef ekki tíma til þess heldur. Ég myndi tala hér í alla nótt.

212 millj. kr. í að stokka upp ráðuneyti heilbrigðis-, velferðar- og jafnréttismálaráðherra. Ég veit það ekki. Ég veit ekki hvort þetta er þriggja hæða hús sem þau eru í, þau gætu meira að segja verið hvert á sinni hæðinni án þess að þurfa nokkurn tíma að rekast hvert á annað ef samstarfið á heimilinu er þannig að fólk vill helst ekki hittast. En að vera með forgangsröðun upp á þetta. Hæstv. forsætisráðherra sagði um daginn að áætlaður kostnaður væri um 70 millj. kr. Örfáum dögum seinna sagði nefndarritari fjárlaganefndar að nú þegar væri vitað að það yrðu 212 milljónir og væri það sennilega vanáætlað.

En nú kem ég að stóra málinu.

50 milljarðar strax út úr lífeyrissjóðunum. Hvað þýðir það? Lífeyrissjóðakerfið státar af eignasafni upp á 4.300 milljarða. Okkur er jafnvel talin trú um að fólkið í landinu eigi þessa sjóði. Það er ekki að sjá. Hvernig ætlum við að fara að því? Þannig er mál með vexti að lífeyrissjóðirnir eru með undanþágu, þeir eru með heimild í lögum og halda eftir staðgreiðslunni af iðgjöldunum og lífeyrisgreiðslunum sem við greiðum inn í þá. Þó að við séum búin að borga það þá fá þeir að halda þeim eftir og gambla með það fé alveg þar til þeir greiða okkur út úr sjóðunum, þ.e. ef við erum ekki löngu dauð áður en kemur að því að við fáum greitt út úr sjóðunum. Hvað verður þá um það sem við höfum greitt í þá? Það hverfur í hítina. Lífeyrissjóðakerfið er byggt upp þannig að það er ekki eins og börnin okkar eða makar fái það sem við höfum greitt, nei, brotabrot. Við höldum áfram að horfa fram hjá því hvernig lífeyrissjóðakerfið er að kokgleypa allt samfélagið. Við erum í samkeppni við okkur sjálf. Þeir eiga nánast í öllum fyrirtækjum í landinu, nánast eins og það leggur sig. Við förum ekki á markað eða í búð að versla nema þar sem við verðum að horfast í augu við að lífeyrissjóðirnir eigi svo mikið í því. Þeir eru með skylduraunávöxtun upp á 3,5% á ári. Þeir verða að ávaxta sig.

Í raun og veru er það einfaldlega þannig að með því að afnema þessa undanþágu, sem ég var að tala um, getur lífeyrissjóður strax á stundinni —

Ég sagði 50 milljarða af því að ég er svo ofboðslega hófleg. Ég var með fyrirspurn á upplýsingasviði Alþingis einmitt um stöðu lífeyrissjóðanna og hvað í rauninni væri í gangi þar. Innflæðið í þá sjóði eru yfir 250 milljarða á ári. Þetta er eins og foss af peningum sem flæðir inn í þetta kerfi og megnið af honum kemur sjálfsagt frá fátækasta fólkinu fátækustu launþegunum.

En hvað um það. Í ljós kom að sennilega væru þetta um 120 milljarðar, sem væri staðgreiðsluskylt af þessu fé. Og þegar betur væri að gáð væru það sennilega um 50–70 milljarðar sem við myndum fá en ekki 70–80 milljarða — ekki þessa 50 sem ég er að tala um hér og nú, því að ég er svo hófleg. Ég er að tala um gamlar tölur, ekki eftir að þetta breyttist núna um 6%, en 21,6% er borgað af okkur inn í þessa sjóði á hverjum einasta mánuði og náttúrlega allt árið um kring.

Þegar ég hef talað um þetta og tala um þetta í sambandi við forgangsröðun fjármuna, þá hefur það aldrei verið á neinum tímapunkti sem ég hef ekki verið algerlega sannfærð um að við þurfum að sýna ráðdeild og hagsæld, vera skynsöm í okkar búskap. Ég er ekki að kalla eftir einni einustu krónu í frekari útgjöld ríkissjóðs, vegna þess að við höfum ekki efni á því og ég veit það sjálf. En búið er að forgangsraða hlutunum rangt. Flokkur fólksins setur fólkið ævinlega í fyrsta sæti, allt annað, eðli málsins samkvæmt, á að koma á eftir. Við förum ekki fram á meira en að grunnþarfir fólksins í landinu séu virtar; Fæði, klæði, húsnæði fyrir alla.

Er virkilega nóg að tala um meðaltal? Er virkilega nóg að tala um hvað við skorum hátt hjá OECD? Er hægt að tala um jöfnuð þegar við vitum að menn eru með 1,6 milljónir á mánuð meðan tugir þúsunda fá útborgað langt undir 300.000 kr.? Að leggja þetta saman og deila í með tveimur — það er skammarlegt. Það er villandi og það er ósanngjarnt að gera það og sýnir ekki raunverulega stöðu þeirra sem basla og draga varla fram lífið. Hugsið ykkur, ég er komin í 77 milljarða kr., bara með þessu.

En eins og ég benti á, þ.e. þessa litlu tölu sem öllum þykir sennilega rosalega lítil í stóra samhenginu, er það þegar komið í 212 milljónir að flytja og skipta upp þessu ráðuneyti. Væri ekki hægt að gera það aðeins seinna? Getum við ekki notað peningana í eitthvað annað og þarfara? Getum við ekki sett fólkið í fyrsta sæti? Hvers vegna erum við kjörin hingað? Við erum kjörin hingað til þess að vinna að heill og hagsæld allra í landinu. Við erum ekki kjörin hingað til að vera hagsmunaaðilar fyrir einn né neinn.

Virðulegi forseti. Það er sárara en tárum taki að horfa upp á að hingað sé komið og talað um þennan blessaða stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Sem er svo kafloðinn og opinn í báða að hann er nákvæmlega í takt við það fjárlagafrumvarp sem ég er að tala um hér og nú. Það er eitt að tala um að koma til móts við fólkið í landinu, annað að segja satt og það þriðja að standa við það. Þrátt fyrir það eina jákvæða sem ég sé nákvæmlega núna að gert var virkilega fyrir fólk, var samt ekki hægt að fara alla leið. Við erum að tala um dauðans alvöru, sjúkdóm sem hefur orðið 42 einstaklingum að aldurtila á árinu. Hugsið ykkur. Jú, bætt var í 150 milljónum. En það var beðið um meira. Það þarf meira. Betur má ef duga skal. Þetta vefst fyrir mönnum. Það vefst ekki fyrir mönnum að bæta við og auka við starfslið þingsins um 17 manns. Það vefst ekki fyrir mönnum að setja á sjöunda hundrað milljónir til stuðnings stjórnmálaflokkum. Það vefst ekki fyrir mönnum. Það vefst ekki fyrir hæstv. forsætisráðherra að tala um að endurnýja þurfi ráðherrabílaflotann sem var endurnýjaður árið 2015 og 2016 fyrir 117 millj. kr.

Við þurfum sannarlega að hugsa um kolefnissporið. En á sama tíma kemur mótsögnin. Við seljum frá okkur loftslagskvótann til að fá 4 milljarða. Hvað skyldum við þurfa til að vera ekki sektuð þegar kemur að því að við þurfum að skila inn okkar? Já, sjáið þið til, við erum að keyra á olíu, við erum að keyra á kjarnorku. Þetta er það sem alþjóðasamfélagið sér. Þetta eru skilaboðin sem við á einu grænasta landi á jörðinni sendum út í alheiminn, að keyra á kjarnorku. En það þarf að gera ýmislegt þegar við brennum tugþúsund tonn af kolum á ári. Er það til þess að bæta kolefnissporið? Nei, það gerir það ekki.

Virðulegi forseti. Ég held að ég þurfi ekki að hafa þetta miklu lengra. Skilaboð mín eru skýr. Flokkur fólksins er ekki farinn neitt. Við höfum ekki svikið nein loforð en við viljum standa við þau. Við vildum gjarnan að fleiri myndu gera það líka, því að í síðustu kosningabaráttu man ég ekki betur en að hver einasti talsmaður hvers einasta stjórnmálaflokks hafi lofað nánast hverju sem var til að vera kjörinn. Ég hvet líka alla landsmenn til að skoða það gaumgæfilega hverjir það voru sem komu á krónu á móti krónu skerðingu og hversu lengi og oft þeir hafa haft tækifæri til að tala gegn henni og jafnvel tíma til að afnema hana með öllu.

Ég segi: Betur má ef duga skal. Við eigum 77 milljarða kr. með breyttum áherslum. Hér er oft talað um að stíga út fyrir boxið, oft talað um að festast ekki, eins og við höfum gert hér, og spóla alltaf í sama farinu. En það er nákvæmlega það sem er verið að gera. Við tölum um göng og vegi, við tölum um hitt og þetta. Við eigum að tala um fólkið fyrst. Það er þess vegna sem við erum hérna. Ætli við séum ekki sennilega að greiða hvað mest, t.d. í heilbrigðiskostnað, af öllum. Hvernig er því varið? Á ég að segja ykkur dæmi, fyrst ég hef tíma til þess? Jú, ef einstaklingur hefur beðið meira en þrjá mánuði hefur hann rétt á að fara til útlanda, t.d. í mjaðmaaðgerð. Hvað skyldi það kosta? Jú, það kostar reyndar þrisvar sinnum meira en ef hún væri gerði hér heima. En það má ekki gera hana á einkastofu. Nei. Heldur fer læknirinn jafnvel með sjúklingi sínum og gerir aðgerðina erlendis og hún kostar þrisvar sinnum meira. Hann gæti gert þrjár aðgerðir fyrir sama pening hérna heima. Er þetta hagsæld? Er þetta alvörustjórn á fjármálum? Er þetta sparnaður?

Ég tala hér, og tíni saman þá milljarða sem ég sé í hendi mér að við gætum tekið inn, sem öryrkinn sem hefur þurft að berjast fyrir tilveru sinni alla tíð — í boði ríkisstjórnar hverju sinni. Ég hef verið fátæk, virðulegi forseti. Ég veit hvað það er, fátæk af peningum að minnsta kosti. En ég hef verið rík af andlegum auði og yndislegu fólki og fjölskyldu og á dásamleg börn. Það verður aldrei metið til fjár. En það hefði óneitanlega verið meira gaman ef ég hefði getað gert meira fyrir þau og lofað þeim að fylgja því sem almennt var viðurkennt í samfélaginu; tónlistarnám, íþróttanám, föt og allt það. Lofað þeim að vera með. En núverandi ríkisstjórn horfir ekki í það. Hún sér eitthvað allt annað.


Tengdar greinar

Hundasvæði á Fáskrúðsfirði

Skilgreint útivistasvæði fyrir hunda sem er við gamla flugvöllinn á Fáskrúðsfirði mun ekki verða til þess að takmarka umferð hestamanna

Myndir frá Seyðisfirði

Veðrið lék við okkur þegar við heimsóttum Seyðisfjörð i fyrri viku. Bærinn er einstaklega hlýlegur, fallega uppgerð hús og miðbærinn

Kartöflusalatið 6 daga fram yfir Best fyrir dagsetningu

Í ný útgefnum og rýmkuðum reglum/leiðbeiningum MAST, Matvælastofnunar, er varða merkingar og geymsluþol matvæla er farið yfir markaðssetningu á matvælum

Engar athugasemdir

Skrifa athugasemd
Engar athugasemdir! Þú getur verið fyrst/ur til skrifa við þessa færslu!

Skrifa athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.