Kæru eldri borgarar!

Kæru eldri borgarar!

gamlingjarNú, þegar við hjónin erum komin á aldur, orðin löggiltir eldri borgarar samkvæmt skilgreiningu opinberrar stjórnsýslu. Ber það við að við fáum inn um dyralúguna skrautbæklinga með brosandi gamlingjum á forsíðu og fjálglega skrifuð bréf þar sem okkur er boðin hagstæð kaup á hinum og þessum varningi sem álitið er að henti okkar aldurshópi. Dæmi um slíkan varning eru sérstakar þvagleka-blúndubuxur, hrukkukrem og stækkunargler fyrir sjóndapra.

Þá berast okkur pésar frá sveitarfélaginu og öðrum velunnurum, þar sem við erum hvött til að taka þátt í fjörugu eldriborgara starfi sem er fjóra tíma í senn, tvisvar í viku á tilteknum stöðum í Fjarðabyggð. Þarna má taka þátt í búta- og perlusaums samkomum og spila félagsvist með hinum gamlingjunum.

Venjulegt, fullfrískt fólk á besta aldri, hrekkur gjarnan við þegar skilaboð samfélagsins eru þau að við séum í þann veginn að verða karlægir aumingjar og hrukkudýr sem pissi undir og sjái ekki fram fyrir sig án þess að nota til þess sérhönnuð stækkunargler. – Okkur er kerfisbundið á 67 aldursári, ýtt út af vinnumarkaði með þvi fororði að okkur sé ætlað að eiga ánægjulegt ævikvöld og bent á að yngra fólk þurfi að komast út á vinnumarkaðinn.

Við þetta verður til utangarðs hópur eldri borgarar sem þarf að halda við efnið svo þeir eldist ekki of hratt og verði byrði á sveitarfélaginu. Þarna skapast vettvangur fyrir námskeiðahaldara og uppfinningasama, metnaðarfulla félagsfræðinga á framabraut.

Hið svokallaða eldri borgara starf er vel meint, en framkvæmdin er miðlægt niðursoðin, á greinilega að henta öllum, en hentar fáum eða engum fyrir vikið. – Til að eldra fólki sem er hent útaf vinnumarkaði í fullu fjöri geti farnast vel og átt “ánægjulegt ævikvöld”, þarf að taka tillit til þess að tekjurnar hafa lækkað. Skattpíníng og gjaldtökur í allri mynd er ávísun á áhyggjur og dregur úr þrótti einstaklinga til athafna og ræktunar áhugamála á eigin forsendum.

Hentugt húsnæði til athafna er eitthvað sem mætti skoða, eldri borgarar gætu nýtt upphitað húsnæði til að vinna að áhugamálum. Þeir gætu komið sér upp rennibekkjum fyrir tré- og járn, steypt í leir og brennt, eða tileinnkað sér enn önnur viðföng eftir efnum og ástæðum. Þeir gætu smíðað gagnlega hluti og farið fram á eigin forsendum. Slíkir staðir þyrftu að vera opnir frá morgni til kvölds alla daga ársins. Kennarar mættu svo gjarnan aðstoða, ef á þyrfti að halda.


Tengdar greinar

Gjafir eru okkur gefnar

Nú þegar styttist til jóla má greina að rétti jólaandinn er farinn að svífa yfir vötnum hjá stjórnarliðinu. Fjárlaganefnd, með

Góð helgi með Pírötum

Laugardegi var að hluta varið með Pírötum á Austurlandi, en í skoðun er að koma upp Austurlands-deild. Fundur var haldinn

Samkvæmisleikur við Póstinn

Ég, eins og margir, fæ póst frá útlöndum. Af því tilefni berst gjarnan tilkynning frá Póstinum þar sem tilgreint er

Engar athugasemdir

Skrifa athugasemd
Engar athugasemdir! Þú getur verið fyrst/ur til skrifa við þessa færslu!

Skrifa athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.