Larfajakkaföt og hringibuxur – Hausttískan fyrir nokkrum árum

Við strákarnir í fjölskyldunni skruppum á útsölur hér um árið. Farið var í verslun við Faxafen í Reykjavík og þar mátaðar buxur, úlpur og peysur fyrir veturinn. Upp um alla veggi hékk varningurinn og borðin í versluninni svignuðu undan stæðum af gallabuxum. Dæmigerð útsala, skipulagt kaos og allt á rúi. Búðin full af skringilegum fötum og fólki sem togaðist á um varninginn. Strákurinn fann sér stagbætta skyrtu og forláta buxur með vasa fyrir neðan hnésbætur og hugðist finna sér góðan kuldajakka við dressið, bað föðurinn um að geyma jakkan sinn á meðan, treysti varlega ástandinu í versluninni.
Mátað, prúttað og greitt fyrir. Allir ánægðir og haldið af stað heim á leið. Sonurinn kominn í ný föt og hafði sett gömlu leppanna í innkaupapokann. Í Hafnarfirði var komið við í versluninni Herra Hafnarfjörður og nýjasta sendingin af jakkafötum skoðuð. Fremst í búðinni voru tískufötin. Áberandi voru svokölluð larfajakkaföt, dökk á lit með trosnuðum kragahornum og illa ásaumuðum hægri hliðarvasa úr öðru efni í ljósum lit. Við hliðina á þeim mátti líta þokkalega útlítandi föt en sá var þó galli á gjöf Njarðar að á vinstri hlið jakkans hafði verið prentaður stafurinn B í hvítu og náði hann allt frá hliðarvasa og upp á kragahornið. Léleg prentun og lítt spennandi að mati föðursins.
Verslunareigandinn sagði þetta nýja sendingu í nýrri línu og þessi jakkaföt rynnu út eins og heitar lummur. Til áréttingar vitnaði hann í tvo unga menn sem höfðu komið í síðustu viku og keypt sitt hvor fötin vegna fyrirhugaðs brúðkaups sem þeir ætluðu að vera við. – þarna var eitthvað verslað og haldið út í bíl, áliðið dags og heimferðin næst á dagsskrá. Bros á andlitum yfir furðulegri fatatísku og skrítnum smekk fólks.
Á bílaplaninu uppgötvar sonurinn að gömlu buxurnar hans eru ekki með í farangrinum, hann hafði farið úr þeim í versluninni í Faxafeni. Í gömlu buxunum átti lyklakippan og farsíminn hans að vera og því var snúið til baka.
Á leiðinni er rætt um að buxurnar séu trúlega glataðar eins og saumanál í heystakk einhvers staðar í buxnastæðunni í versluninni. Syninum hugkvæmist að þar sem farsíminn sé í buxunum þá sé ráð að hringja í hann í þeirri von að verslunareigandinn renni á hljóðið, svari í símann áður en þær verði seldar öðrum í misgripum. Þetta er gert. -Við sjáum verslunareigandann fyrir okkur hlusta um stund á stef úr níundu sinfoníu Bethovens hljóma úr háværum hátalarasíma í buxnastæðunni og bíðum eftir að hann svari. – Ekkert svar. Hringt aftur, enginn svarar. – Við komnir á áfangastað skömmu síðar. Spyrjumst fyrir um buxurnar sem höfðu gleymst, þær hefðu átt að hringja segjum við til skýringar. – He, he, hlær verslunareigandinn og réttir okkur buxurnar. Það kom einn kúninn minn hingað að borðinu með buxurnar í fanginu og spurði hvaða verð væri á þessum nýtísku hringibuxum.
Tengdar greinar
Góð fyrirmynd – þegar vatnið er tekið af húsum okkar
“Vatn verður tekið af húsum við Hjallastræti miðvikudaginn 27. september 2017.- Lokað verður fyrir vatnið kl. 08:00 og má búast
Framkvæmdir hjá hestamönnum á Fáskrúðsfirði
Hestamenn á Fáskrúðsfirði komu saman í morgun og hófu það bráðskemmtilega verk að reisa sér veglegt hringgerði. – Allir lögðust
Vorþankar
Er það lán að fá verðtryggt húsnæðislán sem hækkar svo ofboðslega, að þú greiðir það þrisvar sinnum upp á lánstímanum.