Lyfja – Sölumennska í góðu lagi

by Arndís / Gunnar | 10/07/2020 23:51

Húsakynni Lyfju á Egilsstöðum

Heimsókn karls, eldri borgara í apótek Lyfju á Egilsstöðum var svolítið skondin. Eftir að hafa keypt lyf við nefstíflu og áburð við húðþurrki, spurði karlinn eftir einhverju sem slægi á ónot í maga. – Afgreiðslukonan taldi ekkert slíkt meðal til hjá þeim, en eftir smá hik, virtist sem hún kveikti á perunni, gekk fram fyrir afgreiðsluborðið, beygði sig niður í neðstu hillu í nálægum vörurekka, tók upp pakka og sagði innihald hans vera ágætt við magaverkjum.

Meðalið var svo sem ekki beinlínis gefins, en hvað kaupa menn ekki þegar slæmur magaverkur er annars vegar.

Pakkinn var svo rifinn upp við fyrsta tækifæri og brjóstsykur látinn renna á tungu, eins og ráðlagt var í leiðarvísi, ekki einn moli, heldur tveir, hver á eftir öðrum. Ekki var verkunin mikil.

Kannski var lyfið ekki rétt afgreitt, einhver mistök í afgreiðslu? – Pakkinn tekinn upp úr vasa og rýnt betur í leiðarvísir. Við skoðun kom í ljós að brjóstsykurinn ljúffengi var ætlaður ófrískum konum sem þjást af morgunógleði.

Source URL: https://aust.is/lyfja-solumennska-i-godu-lagi/