Ráðleggingar til hestamanna um áramót

Ráðleggingar til hestamanna um áramót

Dýrahald og flugeldar

Um áramót hafa iðulega orðið slys og óhöpp vegna ofsahræðslu dýra við flugelda og hávaðann frá þeim. Ábyrgð þeirra sem skjóta upp flugeldum er mikil, að valda ekki nálægum dýrum ótta og angist og dýraeigendur þurfa að gæta þess að dýrin fari ekki sjálfum sér eða öðrum að voða. Ótti við skyndileg hávær hljóð háir fjölda gæludýra og ekki síður hrossa. Flest dýr verða vör um sig við þann hávaða og ljósagang sem flugeldum fylgja en sum verða ofsahrædd. Mörg dæmi eru um að hross á útigangi hafi algerlega tryllst, brotist gegnum girðingar og flúið til fjalls og ekki fundist fyrr en löngu síðar, oft illa útleikin. Hross hafa einnig valdið alvarlegum umferðarslysum við slíkar aðstæður, þegar þau æða yfir girðingar og inn á þjóðvegi.
Almennar ráðleggingar

Ýmislegt er til ráða til að draga úr óttanum. Hestum ber að gefa vel, hafa ljós kveikt, til að draga úr áhrifum blossanna, eða byrgja glugga, og ráð er að hafa útvarp í gangi til að jafna út hávaðann. Eigendur ættu að vitja hrossanna um leið og mestu lætin eru yfirstaðin. Útigangshrossum á að gefa vel og halda þeim á kunnuglegum slóðum, þar sem þau fara sér síður að voða ef hræðsla grípur þau. Hundum og köttum ber að halda innandyra og gefa þeim tækifæri að leita sér skjóls þar sem hávaðinn og ljósagangurinn er minnstur.

Við flugeldaótta er sem sagt ýmislegt til ráða og gott er að huga að ráðstöfunum með nokkrum fyrirvara því nokkuð hefur borið á þeim ósið á undanförnum árum að þessi skot eru byrjuð löngu fyrir áramót og halda jafnvel áfram dagana þar á eftir. Dagarnir skömmu fyrir áramót geta því gefið vísbendingar um hvernig dýrin munu bregðast við. Það allra mikilvægasta er þó að sjá til þess að dýrin séu í öruggu umhverfi og njóti stuðnings eigenda sinna.

Notkun róandi lyfja

Í stöku tilvikum getur reynst nauðsynlegt að gefa dýrum róandi lyf, en það skal þó aldrei gert nema í samráði við dýralækni. Ekki hafa öll róandi lyf slævandi áhrif á skynfæri þannig að þrátt fyrir að dýrin virðist slaka á geta þau upplifað óttann en ekki tjáð hann vegna lyfjanna. Aukaverkanir geta fylgt notkun róandi lyfja og aldrei má skilja dýr eftir ein hafi þeim verið gefin slík lyf. – þetta kemur fram á vef matvælastofnunar:

 


Tengdar greinar

Barði NK með Ljósafellið í togi

“Klukkan fimm í morgun var Barði staddur úti af Stokksnesi á vesturleið þegar togarinn Ljósafell frá Fáskrúðsfirði óskaði aðstoðar. Hafði

Miðstýrð hátíðarhöld í Fjarðabyggð

Umræða bæjarstjórnar um tilhögun hátíðarhalda í sameinuðum byggðarkjörnum, sem í dag nefnast Fjarðabyggð, er komin út í hörgul þegar farið

Engar athugasemdir

Skrifa athugasemd
Engar athugasemdir! Þú getur verið fyrst/ur til skrifa við þessa færslu!

Skrifa athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.