Sameining sveitarfélaga í víðara samhengi

Fljótlega eftir að lítt upplýstir aurateljarar og ameríkumenntaðir hagfræðingar komust yfir hið annars ágæta excel forrit og uppgötvuðu súlurit og kökur í öllum regnbogans litum, varð þeim ljóst að hagræða mátti tölum svo úr yrðu haldbær línurit góðum þjóðþrifamálum til stuðnings.
Stjórnsýslan og fyrirtækin höfðu lent á slæmum niðurtúr eftir langvarandi óráðsíu. Og í stað þess að segja af sér, bentu þau á að landsmenn hefðu offjárfest í flatskjám og utanlandsferðum. -Fólk varð sakbitið, það vissi upp á sig skömmina.
Eins og oft, þegar neyðin er mikil, kemur okkur eitthvað til bjargar. Á árum áður var það loðdýraeldi, fiskeldi og feitar gengisfellingar. Nú voru það excel snillingarnir sem björguðu málum.
Lausnirnar skyldu vera sparnaður og hagræðing ásamt Sameiningu sveitarfélaga.
Allar reiknistofur ríkis- og sveitarfélaga voru virkjaðar með nýjustu útgáfu af Excel, línurit og hagkökur flugu út úr prenturum og sjá, snillingarnir uppgötvuðu að fækka mætti skúringakonum, sameina skóla, færa aukinn lyfjakostnað yfir á almenning og nota stóriðju rútur fyrir almenningssamgöngur.
Ráðherrar bættu við sig aðstoðarmönnum, og áfram var reiknað. Sveitarfélögum var gert að hagræða enn frekar til að stoppa í meint göt sem orðið höfðu til á óráðsíu timanum. Fjárlaganefnd alþingis gerðist eltihrellir.
Með excelvæðingunni hófst ógeðfellt tímabil í landinu. Alls staðar var spurt hvort þetta eða hitt borgaði sig eða svaraði kostnaði. Útgerð varð skuldug og óhagkvæm á einum stað. Hana þurfti að flytja yfir í hagkvæmari einingu og sjávarþorpin stóðu uppi með glatað lífsviðurværi. Skólastarf jaðarbyggðar varð óhagkvæmt og það lagt niður að hluta, læknavaktir svöruðu ekki kostnaði og þeim fækkað, apótekið krumpaði sig saman á einn stað miðsvæðis í “Aðal byggðarlaginu”. – Bankaútibúin hurfu frá þessum sömu jaðar byggðum, þau þóttu ekki hagkvæm. Pósturinn mátti muna fífil sinn feguri, en er nú starfræktur í fjóra tíma á dag, út frá hillurekka í kaupfélaginu og hyggur á frekari landvinninga með því að fækka póstferðum í dreifbýli.
Framsækni, útsjónarsemi og frumkvæði eru gleymd hugtök og þekkjast ekki í reikningum. Í staðinn var excel mataður á vergri þjóðarframleiðslu, framleiðni og torskildum prósentuformúlum um peninga- og aurajöfnuð.
Tengdar greinar
Um kjör eldri borgara og þingmanna – Myndband Guðbjörn Jónsson
Í meðfylgjandi myndbandi eftir Guðbjörn Jónsson, er gerður samanburður á lífeyri eldri borgara og starfskjörum alþingismanna, sem sjálfir ákvarða starfskjör
Sinubrunar í Fjarðabyggð
Nokkuð mikið var um sinubruna í Fjarðabyggð um þessi áramót. Samkvæmt frétt á vefsvæði Austurfrétta, fór Slökkvilið Fjarðabyggðar í 15
Nefóbak – Endalusar verhækanir á galaðri vöru
að er að koma betu og etur í ljos að nefobak er meingalaður varingur. Spuning er um skðabótaáyrgð rkisins, þegar