Sameining sveitarfélaga tekur á sig hinar verstu myndir

Sameining sveitarfélaga tekur á sig hinar verstu myndir

Búið er að hagræða svo í hinum ýmsu sveitarfélagskjörnum hér á austfjörðum að sumt fólk hyggst skálka hús sín og flytja búferlum. Húseignir fólks eru gerðar verðlausar ef fram heldur sem horfir. Þjónustustig margra bæjarkjarna í sameinaðri Fjarðabyggð er komið á það stig að ekki verður lengur við unað hjá þeim sem þurfa á almennri þjónustu að halda. Sundstöðum er lokað, læknaþjónusta lögð af eða stórlega skert. Rætt er um hagræðingu og sameiningu á öllum sviðum. Í fyrra átti að færa slökkviliðið frá Fáskrúðsfirði til Reyðarfjarðar, Áhaldahúsið og þjónusta þess átti að fara sömu leið. Íbúar mótmæltu kröftulega og voru þau áform sett í salt að sinni.

Metnaðarfull bankaþjónusta og pósthús var aflagt á sl. vori og eftir stendur skrípamynd af þeirri þjónustu sem trúlega verður lögð af innan skamms vegna óarðbærni, breyttra forsenda og í hagræðingarskyni.

Föstudagurinn í síðustu viku var síðasti dagur apóteksins hér á Fáskrúðsfirð. Eftir að læknaþjónusta var skert og nánast lögð af, varð ljóst að verslun í apótekinu á Fáskrúðsfirði færi minnkandi þar sem beinast lá við að versla lyfin á Reyðarfirði við hliðina á læknaþjónustunni.

SONY DSC
Löndunarbryggjan og brettasmiðja Jónasar í nýuppgerðu húsi

Þegar verið er að skerða þjónustu mættu ráðamenn sveitarfélaga hugsa út í vegalengdir og einnig þess að íbúar þurfa að ferðast í misjöfnum veðrum, snjóþyngslum, jafnvel yfir fjöll og fjalladali við óviðunandi aðstæður, svo sem skafrenning og hríðarbyl. – Þá eiga ekki allir fjallabíl til að ferðast á og sumir eru jafnvel bíllausir en allir þurfa að nálgast nauðsynlega þjónustu hvernig sem þeir eru settir varðandi bílaeign.

Dæmi um þann sem þarf að sækja þjónustu í önnur byggðarlög:

Frá Stöðvarfirði til Reyðarfjarðar og aftur til baka þarf að aka 88 km.
Frá Stöðvarfirði til Neskaupstaðar og aftur til baka þarf að aka 166 km.
Frá Stöðvarfirði til Egilsstaða og aftur til baka þarf að aka 146 km.

Frá Fáskrúðsfirði til Reyðarfjarðar og aftur til baka þarf að aka 41 km.
Frá Fáskrúðsfirði til Neskaupstaðar og aftur til baka þarf að aka 118 km.
Frá Fáskrúðsfirði til Egilsstaða og aftur til baka þarf að aka 100 km.

Tími okkar íbúanna er dýrmætur og við eigum heimtingu á að ráðamenn hafi þann tíma með í Exel útreikningum sínum þegar verið er að hagræða. -Tími og fjármunir sem fara í ferðalög vegna skertrar þjónustu er gríðarlega stórt dæmi ef allt er talið með, svo sem; eldsneytiskostnaður, varahlutir, slit á bílum, vegum og ónýttum tækifærum fólks til að fást við eitthvað annað og þarfara en aka í bíl sínum langar vegalengdir eftir nauðsynlegri þjónustu.

SONY DSC
Glæsileg smábátahöfn ber vitni um framför og hugsanlega kosti sameiningar

Á sama tíma og sveitarfélög sameinast og draga úr þjónustu og miðjuvæða hana með þeim afleiðingum að til búseturöskunar stefnir, eru fyrirtæki að sérvæðast. Verslunin hér á Fáskrúðsfirði selur nánast eingöngu svokallaða dagvöru, það eru vörur sem flest allir nota til daglegs viðurværis.

Gömlu kaupfélögin voru ágæt, sum þeirra voru svokallaðar “krambúðir”, þar fékkst allt milli himins og jarðar og þorparar fengu víðtæka þjónustu hvað verslun varðaði. – Í dag þurfum við sem hér búum að ferðast inn á Reyðarfjörð eftir skrúfu, pensli, málningu, viftureim, nöglum og flest öllu sem ekki tilheyrir brýnustu nauðsynjum.

Kannski er tækifæri að opna á öðruvísi verslunarrekstur á þessu svæði. – Þá á ég við að endurvekja gömlu góðu krambúðina, semja við Lyfju um rekstur útibús, taka yfir póstþjónustuna með einhverjum hætti og keppa við Byko og Húsasmiðuna í smærri vörueiningum. – Lifið heil.

SONY DSC
Sandfell – séð yfir fjörðinn


Tengdar greinar

Er sjálfgert að hætta á lyfjunum sínum?

Margir þeir sem búa við skert laun; aldraðir, öryrkjar og atvinnulausir, sjá sér ekki fært að leysa út lyfin sín

Meirihlutinn í Fjarðabyggð fallinn – Er það okkur að kenna?

Þar sem við hjónin fylgjum Pírötum að málum, vorum við á báðum áttum með að kjósa í Fjarðabyggð (Píratar buðu

Engar athugasemdir

Skrifa athugasemd
Engar athugasemdir! Þú getur verið fyrst/ur til skrifa við þessa færslu!

Skrifa athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.