Skrípaleikurinn endalausi

Í allt haust hafa ótrúlegar verðhækkanir verið að koma fram. Álögur margra sveitarfélaga hafa hækkað verulega og flest sveitarfélög hafa fært útsvarsprósentu upp í hæsta leyfilega þak, þótt tvö eða þrjú sveitarfélög hafi lækkað álagið.
Blekið er vart þornað á samningablöðum um kaup og kjör, þegar fréttir Rúv.is greina frá frekari hækkunum: “Almenn komugjöld á heilsugæslustöðvum hækkuðu um 18 til 21 prósent um áramótin. Komugjöld til sérfræðinga og á bráðamóttöku hækkuðu um 11 prósent og greiðsla fyrir komu og endurkomu á göngudeildir hækkaði um 15 prósent.” – Upptalning á hækkunum er enn víðtækari en hér greinir.
Smánarlegar launahækkanir, sem ekki ná að leiðrétta kjör fólks gagnvart verðbólgu, standa engan veginn undir þeim hækkunum á vöru og þjónustu, sem nú koma fram.
Við stöðugar hækkanir fer verðbólgan af stað, framfærsluvísitala hækkar verðtryggðu húsnæðislánin. Næst gerist það að Seðlabankinn hækkar stýrivexti og þá er skammt í að aðföng heimila hækki, þar sem seljendur vöru og þjónustu þurfa að hækka álögur til að eiga fyrir hærri vaxtagreiðslum.
Þegar þarna er komið er skrípaleikurinn endalausi búinn að ná í skottið á sjálfum sér og allt byrjar upp á nýtt.
Ábúðarfullir verkalýðsrekendur hefja upp raust sína. Allt kjaftæðið um ábyrga kröfugerð tekur á sig nýjar og ýktar myndir með sömu afleiðingum og áður. Þeir sem þurftu á launahækkunum að halda fá ekkert eins og fyrr, hinir sem eru með háu launin, fá allt sem kallast má launahækkun, enda laun þeirra farin að halla í tvær glóðvolgar millur eftir síðasta kjarasamning.
Láglaunafólki fjölgar á stöðum sem úthluta ölmusu.
Tengdar greinar
Er grundvöllur fyrir vöruskiptum?
Hvernig lýst þér á að selja gamla tjaldvagninn og eignast inneign í vöruskiptabanka og geta síðan keypt þér eitthvað annað
Kæru eldri borgarar!
Nú, þegar við hjónin erum komin á aldur, orðin löggiltir eldri borgarar samkvæmt skilgreiningu opinberrar stjórnsýslu. Ber það við að
Móna Lísa – Hvernig liti hún út ef hún værir máluð í dag?
Kannski yrði myndin af Mónu Lísu ekki langt frá því að vera eins og her sýnir, ef hún væri máluð