Þegar við fengum þann “stóra”

Þegar við fengum þann “stóra”

SONY DSCEitt sinn sem oftar fórum við hjónin til fiskjar á bátnum okkar. Þvældumst um allan fjörð og urðum ekki vör við fisk. Grunnt út af Eyri, sem er býli, sunnan megin í Fáskrúðsfirði, renndum við færum. Eftir stutta stund mátti finna að eitthvað var á, og það var þungt. Ekki fannst neitt sprikl og við ímynduðum okkur að á önglinum væri stórlúða, sem er þekkt fyrir að taka lítið á í byrjun. Haldið var áfram að rúlla færinu inn.

SONY DSCFærið þyngdist því meira sem var dregið, sjálfgert var að hvílast á milli átaka, slík var þyngdin. – Á síðustu metrunum mátti greina eitthvað dökkt flykki niður í djúpinu, og spenningurinn jókst. – Hvað var hér á ferðinni, stórlúða eða risaskata? – Báturinn var kominn nánast á hliðina vegna þungans og þá gerðist það að vélin fór að hiksta. Hart var brugðist við. Færinu slakað og við það réttist báturinn af, hlaupið var fram í stýrishús og bætt við olíugjöfina. En of seint, vélin þagnaði.

Eftir að hafa startað vélinni nokkrum sinnum, þá hrökk hún í gang og gekk eðlilega. Færið athugað, kvikindið virtist enn á önglinum, -þyngdin svipuð og áður.

Þarna var hafist handa við að draga inn, færið þyngdist. Nokkrum metrum ofar, þegar flykkið var við það að nálgast borðstokkinn, þagnaði vélin. Nákvæmlega við sömu aðstæður og áður.

Okkur varð brugðið. Vélin hafði reynst okkur vel til þessa og ekki slegið feilpúst áður, en núna drap hún á sér í tvígang við nákvæmlega sömu aðstæður, og á innan við 10 mínútum.

Við hjónin ræddum um þetta okkar á milli í nokkra stund og ákváðum að láta slag standa með vélina og draga inn það sem var á færinu, veður og sjólag var hið besta.

Sem áður, lagðist báturinn nánast á hliðina þegar haldið var áfram að draga. Niður í sjónum mátti grilla í dökka þúst, sem smátt og smátt færðist nær borðstokknum. – Spenningurinn jókst. Ég bað konuna að vera tilbúna með gogginn og ífæruna. – En vonbrigðin voru mikil þegar í ljós kom að á færinu var svokallað drauganet. Drauganet eru net og trossur sem fiskiskip glata í illviðrum. Þarna ákváðum við að sleppa veiðinni og snúa okkar að því að komast til lands.

Eftir nokkuð basl komum við vélinni í gang, hún hikstaði og reykti og við komumst við illan leik til hafnar. – Þegar betur var að gáð, kom í ljós að vatn hafði komist í olíutankinn um veturinn. Þegar bátnum hallaði við átökin, komst vatnið greiða leið að olíusíum og þaðan að vél, með fyrrgreindum afleiðingum.


Tengdar greinar

Hrossakaup eða hrossakaup

Sýnist sem búið sé að eyðileggja leitarorðið “hrossakaup” á Google með því að tengja það við vafasama pólitíska gjörninga. Ég

Lánareiknir – Skuldaleiðrétting húsnæðislána

Hér er vefsíða, þar sem skoða má hverra leiðréttinga má vænta til lækkunnar á verðtryggðu húsnæðislánunum. Sjá: Lánareiknir.

Gengið jafnar sig eftir uppsveiflu

Þau tíðindi berast frá norskri ferðaskrifstofu að ferðamenn afbóki íslandsferðir sem aldrei fyrr vegna hækkaðs gengis krónunnar. Þar með er

Engar athugasemdir

Skrifa athugasemd
Engar athugasemdir! Þú getur verið fyrst/ur til skrifa við þessa færslu!

Skrifa athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.