Umsagnir vegnar Fiskeldi Austfjarða á allt að 20.800 tonn í Beru- og Fáskrúðsfirði

Umsagnir vegnar Fiskeldi Austfjarða á allt að 20.800 tonn í Beru- og Fáskrúðsfirði

Fiskeldisker í sjó

Bæjarráð 7. janúar 2019: „Lögð fram umsögn, vegna beiðni Matvælastofnunar, um allt að 20.800 tonna framleiðslu Fiskeldis Austfjarða á laxi í Berufirði og Fáskrúðsfirði. Bæjarráð tekur undir efni minnisblaðs þar sem fram kemur að mikilvægt sé að vandað eftirlit verði haft með niðursetningu sjókvía og öðrum framkvæmdum tengdum fiskeldi í sjó. Eins og fram kemur í athugasemdum sveitarfélagsins og annarra aðila, eru miklir hagsmunir til staðar tengdir siglingaleiðum og því verður að tryggja eftirlit með raunverulegri staðsetningu mannvirkja í sjó svo siglingaleiðum sé ekki ógnað. Þá minnir bæjarráð á að lítið sem ekkert eftirlit er með starfsemi fiskeldis á Austfjörðum og bendir bæjarráðs í því sambandi á að Heilbrigðiseftirlit Austurlands er vel til þess fallið að annast eftirlitið. Vísað til afgreiðslu í bæjarstjórn.“

Bréf Matvælastofnunar:

Efni: Beiðni um umsögn vegna eldis á allt að 20.800 tonna framleiðslu Fiskeldis Austfjarða á laxi í Berufirði og Fáskrúðsfirði

„Matvælastofnun hefur til meðferðar umsókn um rekstrarleyfi til fiskeldis frá Fiskeldi Austfjarða í Beru- og Fáskrúðsfirði. Fiskeldi Austfjarða er í dag með 8.000 tonna rekstrarleyfi til sjókvíaeldis á laxi og regnbogasilungi í Berufirði sem gefið var út af Fiskistofu árið 2011. Fyrirtækið er einnig með 3.000 tonna rekstrarleyfi til sjókvíaeldis á regnbogasilungi í Fáskrúðsfirði sem gefið var út af Fiskistofu árið 2013. Fiskeldi Austfjarða hefur sótt um aukna framleiðsluheimild í Beru- og Fáskrúðsfirði og áætlar að ala 9.800 tonn af laxi í Berufirði og 11.000 tonn í Fáskrúðsfirði. Laxar fiskeldi áætla einnig að framleiða 4.000 tonn af laxi í sjókvíum í Fáskrúðsfirði. Framleiðsla og hámarkslífmassi Fiskeldis Austfjarða í Berufirði er innan þess burðarþolsmats sem Hafrannsóknastofnun hefur gefið út fyrir fjörðinn en samkvæmt áhættumati stofnunarinnar er gert ráð fyrir 6.000 tonnum af frjóum laxi í firðinum. Sameiginleg framleiðsla og hámarkslífmassi Fiskeldis Austfjarða og Laxa fiskeldis í Fáskrúðsfirði yrði 15.000 tonn af laxi á ári og samræmist því 15.000 tonna burðarþolsmati fjarðarins. – Áhættumat Hafrannsóknastofnunar er sameinginlegt fyrir Fáskrúðsfjörð og Reyðarfjörð og er 15.000 tonn.

Í samræmi við 7. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi óskar Matvælastofnun hér með eftir umsögn Fjarðabyggðar vegna fyrirhugaðrar leyfisveitingar um það hvort náttúrulegar aðstæður á fyrirhugaðar eldistegundir, eldisstofnar eða eldisaðferðir gefi tilefni til neikvæðra vistfræði- eða erfðafræðiáhrifa sem leitt getur af leyfisskyldri starfsemi.

Matvælastofnun óskar einnig eftir afstöðu Fjarðabyggðar vegna fjarlægðamarka milli eldissvæða Fiskeldis Austfjarða og Laxa fiskeldis í Fáskrúðsfirði í samræmi við 4. gr. reglugerðar 1170/2015 um fiskeldi. Tekið skal fram að í samræmi við 5. gr. sömu reglugerðar getur Matvælastofnun gert kröfu um aukna og/eða samræmda hvíld stöðva eða svæða hjá samliggjandi sjókvíaeldisstöðvum og ákveðið að stærri svæði verði hvíld í lengri tíma ef þörf er á slíku. Matvælastofnun tekur ákvörðun um útsetningu seiða m.t.t. fjölda seiða og tímasetningar á einstökum sjókvíaeldissvæðum.

Stofnunin óskar jafnframt eftir afstöðu Fjarðabyggðar vegna eldissvæða í Fáskrúðsfirði. Umsækjandi óskar eftir að nýta svæði B fyrir kvíarnar og tengdan búnað en óskar eftir að botnfestingar megi liggja inni á svæði A (sjá mynd af eldissvæðum í viðhengi í tölvupósti).

Framkvæmdin er háð mati á umhverfisáhrifum og tenglar á matsskýrslu fyrirtækisins ásamt viðbótargreinargerð og áliti Skipulagsstofnunar fylgir umsagnarbeiðninni (í tölvupósti). Óskað er eftir því að umsögn verði send til Matvælastofnunar fyrir 18. desember 2018 og einnig á tölvupóstfang: erna.oskarsdottir@mast.is. Ef ákveðið verður að veita ekki umsögn er þess óskað að staðfesting þar um verði send á fyrrgreint tölvupóstfang.

Virðingarfyllst
f.h. Matvælastofnunar
_________________________________
Erna Karen Óskarsdóttir
Fagsviðsstjóri fiskeldis

Fylgiskjal: Matsskýrsla Fiskeldis Austfjarða
Viðbótargreinargerð Fiskeldis Austfjarða
Álit Skipulagsstofnunar
Mynd af eldissvæðum í Fáskrúðsfirði“

———————————————————————————————————————————–

Svar Fjarðabyggðar:

M I N N I S B L A Ð

I. Erindi Matvælastofnunar
„Vísað er til bréfs Matvælastofnunar dags. 27. nóvember sl., þar sem óskað er eftir að sveitarfélagið Fjarðabyggð gefi umsögn og upplýsi um afstöðu sveitarfélagsins vegna umsóknar um rekstrarleyfi til Fiskeldis Austfjarða í Berufirði og Fáskrúðsfirði, fyrir allt að 20.800 tonna framleiðslu á laxi.

II. Áhættumat Hafrannsóknarstofnunar
Í inngangi erindis Matvælastofnunar er vitnað í áhættumat Hafrannsóknarstofnunar sem er sameiginlegt fyrir Fáskrúðsfjörð og Reyðarfjörð og miðast við 15.000 t framleiðslu á frjóum laxi á ári. Fjarðabyggð telur erfitt að taka afstöðu til framleiðslumagns af frjóum fiski, samkvæmt áhættumati þar sem það hefur ekki lögformlegt gildi.

Burðalþolsmat Hafrannsóknarstofnunar sem byggir á lögum um fiskeldi, nr. 71/2008 heimilar ársframleiðslu á austfjörðum upp á að minnsta kosti 52.000 tonn. Þar af er Reyðarfjörður einn og sér metinn með 20.000 tonna framleiðslugetu og að Fáskrúðsfjörður beri 15.000 tonn. Ef miðað er við áhættumat Hafrannsóknarstofnunar er því um verulega framleiðsluskerðingu að ræða. – Samkvæmt framlögðum gögnum virðist sem Fiskeldi Austfjarða ætli að framleiða bæði frjóan og ófrjóan lax. Í umsagnarbeiðni Matvælastofnunar kemur ekki fram hvernig framleiðsla frjórra og ófrjórra fiska skiptist.

Nú liggja fyrir umsóknir tveggja fyrirtækja á þessu svæði, bæði Fiskeldi Austfjarða ehf og Laxar ehf hafa sótt um leyfi til eldis í Fáskrúðsfirði og Laxar hafa einnig sótt um leyfi í Reyðarfirði og hafa hafið framleiðslu þar. Það er því ljóst að hámarksframleiðsla upp á 15.000 tonn af frjóum fiski á ári í þessum tveimur fjörðum þýðir að annað hvort fyrirtækjanna mun ekki ná sínum áformum fram.

Ef Matvælastofnun hefur í hyggju að notast við áhættumatið sem grundvöll leyfisveitinga er óskað eftir því að stofnunin geri opinbert hvernig leyfilegu magni verði útdeilt, þar sem sú úthlutun hefur veruleg áhrif á framtíðaráform og framtíðarmöguleika beggja umræddra fyrirtækja.

III. Umsögn um fyrirhugaðar leyfisveitingar
Matvælastofnun óskar eftir umsögn Fjarðabyggðar í samræmi við 7. gr laga 71/2008 um hvort náttúrulegar aðstæður á fyrirhugaðar eldistegundir, eldisstofna eða eldisaðferðir, gefi tilefni til neikvæðra vistfræði- eða erfðfræðiáhrifa sem geti leitt af leyfisskildri starfssemi.

Fjarðabyggð bendir á að rétt sé að leita umsagna Hafrannsóknarstofnunar sem og annarra viðeigandi fagstofnana, varðandi efni spurningarinnar. Fjarðabyggð hefur ekki forsendur til að gefa umsögn um framangreint, fyrr en álit viðeigandi stofnana liggur fyrir.

IV. Afstaða til fjarlægðarmarka milli eldissvals
Matvælastofnun óskar eftir umsögn Fjarðabyggðar í samræmi við 4. gr. reglugerðar 1170/2015 um fiskeldi, er varðar fjarlægðarmörk milli eldissvæða Fiskeldis Austfjarða og Laxa fiskeldis í
Fáskrúðsfirði. Varðandi atriði sem lúta að fjarlægðarmörkum með tilliti til fiskisjúkdóma eða annarra eldistengdra þátta, telur Fjarðabyggð að rétt sé að leita umsagna viðeigandi fagstofnana. Fjarðabyggð telur að rétt sé að hafa samráð við aðra hagsmunaaliða, þar með talið Laxa fiskeldi, um fjarlægðarmörk milli eldissvæða. Mikilvægt er að leyfisveiting til eins aðila gangi ekki á rétt eða hagsmuni annarra. Ennfremur telur Fjarðabyggð að rétt sé að leita álits svæðisráðs fyrir strandsvæðisskipulag á Austfjörðum í samræmi við lög 88/2018 vegna afmörkunar eldissvæða í sjó utan netlaga.

V. Afmörkun eldissvæða í Fáskrúðsfirði
Matvælastofnun óskar eftir umsögn Fjarðabyggðar vegna afmörkun eldissvæða í Fáskrúðsfirði og staðsetningar botnfestinga. Fjarðabyggð óskar eftir frekari upplýsingum um fyrirhugaða staðsetningu botnfesta við Eyri/Fagreyri. Ráða má af þeim gögnum sem liggja fyrir að botnfestur landmegin verði utan skilgreindra eldissvæða og jafnvel innan netlaga. Minnt er á framkvæmdir innan netlaga, eru meðal annars háðar leyfi sveitarfélagsins og samþykkis landeiganda. Gagnvart botnfestum sem fyrirhugaðar eru á svæði sem merkt er A á mynd af eldissvæðum, sem fylgir fyrirspurn Matvælastofnunar, telur Fjarðabyggð að ekki séu nægjanleg gögn til að taka afstöðu til málsins. Ríkir hagsmunir eru að siglingaleiðir séu óhindraðar og því er nauðsynlegt að fá upplýsingar um hver er hnitasetning fyrirhugaðra botnfesta og hvert er dýpi og lega festivíra. Einnig telur Fjarðabyggð að nauðsynlegt sé að upplýsa á þessu stigi hver yrði afmörkun eldissvæða í tilkynningu til sjófarenda. Sú afmörkun mun birtast á sjókortum og því er nauðsynlegt að hafa þær upplýsingar handhægar, til að hægt sé að taka afstöðu til erindis Matvælastofnunar. Ef fyrirhuguð afmörkun er sú sama og hnitasetning svæðis A eða B, væri gott að fá það staðfest. Ennfremur telur Fjarðabyggð rétt að vekja athygli Matvælastofnunar á því, að hluti fyrirhugaðs eldissvæði er innan 250 metra frá stórstraumsfjörumáli við friðlýst æðarvarp. Samkvæmt 3. gr reglugerðar 252/1996 er óheimilt, án leyfis varpeiganda, að leggja net í sjó nær friðlýstu æðarvarpi en 250 metra frá stórstraumsfjörumáli. Eins og ljóst er á athugasemdum sem fram komu á kynningartíma frummatsskýrslu vegna fiskeldisins, eru hagsmunir æðarræktenda ríkir og Fjarðabyggð telur mikilvægt að leyfisveiting vegna nýrrar atvinnustarfsemi taki tillit til þeirrar starfsemi sem fyrir er. – Loks er óskað eftir að leitað verði álits Landhelgisgæslunnar á fyrirhugaðri staðsetningu botnfesta.

VI. Lokaorð

Sveitarfélagið Fjarðabyggð stefnir að fjölbreyttu atvinnulífi og styður uppbyggingu fiskeldis í sveitarfélaginu og fagnar því að Matvælastofnun óski eftir áliti sveitarfélagsins. – Sveitarfélagið telur mikilvægt að vandað eftirlit verði haft með niðursetningu sjókvía og öðrum framkvæmdum tengdum fiskeldi í sjó. Eins og fram kemur í athugasemdum sveitarfélagsins og annarra aðila, eru miklir hagsmunir til staðar tengdir siglingaleiðum og því verður að tryggja eftirlit með raunverulegri staðsetningu mannvirkja í sjó svo siglingaleiðum sé ekki ógnað.

ABS, VÆI, VS, HÁ“


Tengdar greinar

Umhverfisverðlaun Fjarðabyggðar 2017 afhent

“Umhverfisverðlaun Fjarðabyggðar voru veitt í annað sinn á Stríðsárasafninu á Reyðarfirði í dag. Viðurkenningar voru veittar í þremur flokkum; fyrir

Kjarasamningar – Bjöllur klingja!

Nú í aðdraganda samninga um kaup og kjör hinna vinnandi stétta, er varað við kauphækkunum umfram tvö til tvö og

Alþingi íslendinga – Kjósendur í kvíðakasti

Ætli við séum nokkuð ein um það að fá hnút í magann þegar okkar háttvirta alþingi kemur saman? – Lausnirnar

Engar athugasemdir

Skrifa athugasemd
Engar athugasemdir! Þú getur verið fyrst/ur til skrifa við þessa færslu!

Skrifa athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.