Vélbáturinn Kría var slitin upp með vélarafli frá bryggju í Fáskrúðsfirði

Vélbáturinn Kría var slitin upp með vélarafli frá bryggju í Fáskrúðsfirði

Við skoðun á myndum frá vettvangi hefur komið í ljós að vélbáturinn Kría var slitin frá bryggjustæði sínu í smábátahöfninni í Fáskrúðsfirði. Báturinn var ekki losaður af óvitum í leik við höfnina.

Nokkuð vélarafl þarf til að slíta spotta sem slíkan.

Greinilegt er að fullorðnir menn voru hér að verki og þeir á öflugum bát. Þeir losað aftari spotta Kríu, tekið hann upp í festu á bát sínum og togað í þar til framspotti Kríu slitnaði. Þá var bátnum sleppt og hann látinn reka fyrir veðrum og vindum þar til hann hafnaði upp í grjóturð í austanverðri smábátahöfninni.

Þegar við komum að bátum að morgni laugardags þar sem hann hékk á hælnum, tjáði hafnarvörður okkur að við værum þó lánsöm, að hafa mætti upp á þeim sem þarna voru að verki, þar sem við þessa bryggju væri vönduð og dýr eftirlitsmyndavél sem væri í umsjón yfirhafnavarðar og þyrftum við einungis að bíða til mánudags þar til hann mætti á skrifstofu sína og þá kæmu staðreyndir málsins í ljós.

En svo bregðast krosstré sem önnur tré… Engar fréttir bárust frá lögreglu eða af gangi mála á mánudegi og ekki heldur á þriðjudegi. Á miðvikudeginum var ákveðið að spyrjast fyrir hjá lögreglunni hér á Fáskrúðsfirði. Og vitið menn. Kjörgripurinn, vaktmyndavélin rándýra við bryggjuhausinn, -sem átti að veita bátaeigendum vernd gegn skemmdarvörgum, þjófum og öðrum óbótamönnum, var ekki í viðhlítandi ástandi þennan dag. Að sögn vakthafandi lögreglumanns hafði myndavélinni ekki verið sinnt af þeim sem átti að sjá um hana, og því engin sönnunargögn að hafa úr þeirri átt.

Við viljum eindregið skora á alla þá sem urðu varið við bátsferðir í höfninni í Faskrúðsfirði frá miðnætti aðfaranætur laugardagsins 16. ágúst sl. og fram undir morgun þess sama dags, að láta okkur eða lögreglu hér á Fáskrúðsfirði vita. – Símar: Lögregla: 444 0660, Gunnar 868 8261 Arndis 822 7204

Það er nokkuð skítt að þurfa að greiða á annað hundrað þúsund á ári fyrir að vera með bát sinn við bryggju í smábátahöfninni og að hann fái ekki lágmarks eftirlit, svo sem að fylgst sé með honum í eftirlitsmyndavél sem þó er á staðnum, en í þessu tilviki, einungis til skrauts upp í staur við bryggjuhausinn. – Spurning hvort bátseigendur á vaktsvæði hafna þurfi ekki að koma sér upp sínum eigin eftirlitsmyndavélum?

Undanfarin 12 ár höfum við verið með vélbátinn Kríu ýmist á floti í smábátahöfninni eða upp á landi hér á Fáskrúðsfirði. Á þessum tíma hefur ekkert það gerst sem telja má til óæskilegra afskipta af bátnum. Sömu aðilar hafa verið með báta sína hér á þessum árum og hver passað upp á annan eftir bestu getu. – Spyrja má sig, hvað hefur breyst í höfninni og nágenni hennar, að við verðum fyrir þeirri óvild sem hér um ræðir. – Vissulega beittum við okkur gegn fiskeldinu á sínum tíma og við höfum gagnrýnt það að grútur slapp á fjörur hér um árið, en skrif okkar hafa jafnan verið málefnaleg og upplýsandi.


Tengdar greinar

Skemmtileg myndbönd af páfagaukum

Páfagaukur matar hund í mesta bróðerni Páfagaukur sem elskar Elvis Presley

Ráðleggingar til hestamanna um áramót

Dýrahald og flugeldar Um áramót hafa iðulega orðið slys og óhöpp vegna ofsahræðslu dýra við flugelda og hávaðann frá þeim.

Blómin skarta sínu fegursta

Sumarið hefur leikið við okkur hér á austurhorninu það sem af er sumri. Myndirnar segja allt um það.

Engar athugasemdir

Skrifa athugasemd
Engar athugasemdir! Þú getur verið fyrst/ur til skrifa við þessa færslu!

Skrifa athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.