Verðbólgudraugurinn fundinn!

Verðbólgudraugurinn fundinn!

Mynd: Gunnar Geir

Mynd: Gunnar Geir

Hann heldur til í dökkri byggingu við Kalkofnsveg, sem í daglegu tali kallast Svörtuloft og hýsir Seðlabanka Íslands. Draugur þessi er mjög skæður. Hann fylgir ráðamönnum og stóreignafólki að málum, en leggst á og blóðmjólkar láglaunafólk, öryrkja, eldri borgara og þá sem minna mega sín í þjóðfélaginu. Verðbólgudraugurinn er hið mesta snobbhænsni og skræfa og gengur jafnan erinda stóreignafólks, og svo megn getur hann verið að einna helst má líkja honum við uppvakninginn Tilbera, sem vel megandi húsmæður mögnuðu upp hér á árum áður til að hafa nytjar af sauðsvörtum almúganum.

Draugagangurinn

Auðvitað eru nútíma draugar öðruvísi en draugar fyrri alda, eins og gefur að skilja. – Áður hrekktu þeir fólk á förnum vegi, fældu hross undan eigendum sínum og gerðu börn og gamalmenni ofsahrædd með uppátækjum sínum.

Í dag eru draugar komnir inn í önnur nútímalegri híbýli og hættir að hanga upp á fjósabitum og spangóla á öræfum landsins í vondum veðrum. Nútíminn býður draugum betri kost, og er verðbólgudraugurinn þar engin undartekning. – Hann hefur komið sé fyrir við stýrivaxtatölvu Seðlabanka Íslands og þaðan hrellir hann fátæklinga við hvert tækifæri. – Hrellurinn er þannig útfærður að Verðbólgudraugurinn hækkar stýrivexti til banka, bankarnir hækka útlansvexti til fyrirtækja og fyrirtækin hækka vöru og þjónustu. Þegar þarna er komið, mælist vísitala framfærslukostnaðar svo há, að verðtryggðu húsnæðislánin hækka sjálfkrafa og nýfengin kauphækkun almennings er að engu orðin.

Hvernig kveður maður niður draug?

Þegar draugar vaða uppi, gæti komið að því að kveða þurfi þá niður. -Hvernig skal það gert? – Eru prestar þessa lands svo kærleiksríkir og vinveittir almenningi, að þeir hafi afl, vilja og eða getu til að kveða niður verðbólgudraug? – Hvað með Sigmund Davíð eða Bjarna Ben, gætu þeir eða vilja þeir nýta getu sína í verkefnið? – Tæplega. Munum að verðbólgudraugurinn er Tilberi okkar tíma, og hann þjónar hagsmunum þeirra sem eiga peninga á kostnað þeirra sem minna mega sín.


Tengdar greinar

Er alþingissveppurinn eða bróðir hans fundinn?

Það er einhvern veginn svona sem gerist þegar vitsmunalíf alþingmanna þornar upp við langar slímsetur á þingi. – Þeir gleyma

Framkvæmdirnar við Skólaveginn í Fáskrúðsfirði

Á vefsvæði Fjarðabyggðar kemur fram að endurbætur á Skólavegi í Fáskrúðsfirði séu enn í fullum gangi og reiknað með að

Landsmenn rændir með reikningskúnstum

Í Bændablaðinu þann 1. júní sl. segir Hörður Kristjánsson: „Það er afar áhugavert að fylgjast með tölum Seðlabanka Íslands um

Engar athugasemdir

Skrifa athugasemd
Engar athugasemdir! Þú getur verið fyrst/ur til skrifa við þessa færslu!

Skrifa athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.